Vorum stundum lengi að hugsa í hitanum

Selma Sól Magnúsdóttir djöflaðist í 90 mínútur á miðjunni í miklum hita þegar Breiðablik vann 4:1-sigur á ASA Tel Aviv í fyrsta leik Blika í undanriðli Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í Sarajevó í dag. Hitinn var um 30 gráður, nánast logn og glampandi sól – hvernig var að spila við þær aðstæður?

„Það var erfitt á köflum, það var mikið af hlaupum og stundum vorum við svolítið lengi að hugsa í hitanum fannst mér. En í endann var þetta alveg komið og þá gekk þetta vel,“ sagði Selma Sól við mbl.is í Sarajevó.

Breiðablik komst í 4:0 og komst yfir strax á fjórðu mínútu, en hvernig var þetta ísraelska lið?

„Þær voru teknískar og reyndu mikið einstaklingsframtök. Svo voru þær mikið að reyna að hlaupa á bak við vörnina. Þær voru samt yfirleitt rangstæðar, svo mér fannst þér ekki ná að brjóta okkur,“ sagði Selma Sól.

Næsti leikur Blika er á laugardag, þurfa leikmenn ekki að halda sig eins og þeir geta frá sólinni í Bosníu þangað til?

„Heldur betur, ég held að það sé aðalatriðið,“ sagði Selma Sól Magnúsdóttir við mbl.is, en nánar er rætt við hana í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert