Ída Marín munurinn á liðunum

Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar.
Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, sagði Ídu Marín Hermannsdóttur vera muninn á liðunum er Stjarnan tapaði fyrir Fylki, 1:3, í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. Ída skoraði tvö og lagði upp eitt fyrir Fylki. 

„Tóninn var gefinn á fyrstu mínútu. Við áttum góða sókn í byrjun. Svo fær Ída Marín boltann og fær dauðafæri sem Birta ver og það gaf tóninn fyrir það sem var að gerast. Ída Marín var munurinn á liðunum í dag. Þegar hún kemst á ferðina er erfitt að stoppa hana. Hún er gríðarlega skemmtilegur og efnilegur leikmaður," sagði Kristján. 

Hann skilur hvers vegna Ída fékk víti í upphafi seinni hálfleiks. Hún skoraði sjálf úr vítinu og kom Stjörnunni í 2:0. „Anna María nær boltanum fyrst en svo sýnist mér hún fara í hana. Ég skil af hverju dómarinn dæmi víti."

Þrátt fyrir tapið var Kristján ánægður með eitt og annað í leik síns liðs. 

„Fyrst og fremst börðumst við og skoruðum mark í lokin sem mér þykir vænt um. Þær börðust svo áfram og gáfust ekki upp. Uppspilskaflarnir voru oft ágætir en við erum ekki að skjóta markið fyrr en í lok leiksins."

Stjarnan hefur aðeins unnið einn leik af síðustu tíu í öllum keppnum og er liðið aðeins þremur stigum frá fallsæti. 

„Þetta er þéttur pakki og mjög svipuð lið. Ef að einstaklingur kemst í gang eins og í þessum leik þá skilur það oft liðin af í leikjunum. Við gerum okkar mistök og við erum að reyna að möndla saman lið. Ég er frekar hress með stelpurnar, en auðvitað er hundleiðinlegt að tapa," sagði Kristján. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka