Blikar burstuðu óheiðarlegan andstæðing

Byrjunarlið Breiðabliks í leiknum við Dragon í Sarajevó í dag.
Byrjunarlið Breiðabliks í leiknum við Dragon í Sarajevó í dag. Ljósmynd/Ingibjörg Auður

Íslandsmeistarar Breiðabliks unnu annan öruggan sigur í undanriðli Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu þegar liðið mætti Dragon frá Norður-Makedóníu í Sarajevó í dag. Blikar unnu 11:0 gegn liði sem spilaði mjög óheiðarlega á köflum eins og lesa má hér neðar, þar sem meðal annars hnefar voru notaðir.

Breiðablik var með gríðarlega yfirburði allan leikinn og komst yfir strax á sjöttu mínútu. Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir lagði þá boltann í netið eftir að Berglind Björg Þorvaldsdóttir hélt boltanum vel í teignum. Næsta mark kom á 25. mínútu og það skoraði Hildur Antonsdóttir eftir að Berglind gaf góða stungusendingu á hana.

Berglind var svo sjálf á ferðinni á 28. mínútu úr vítaspyrnu eftir að Hildur var felld innan teigs. Í uppbótartíma fyrri hálfleiks skoraði svo Selma Sól Magnúsdóttir fjórða markið með föstu skoti eftir hornspyrnu og staðan 4:0 í hálfleik.

Enn meiri einstefna eftir hlé

Blikar þurftu ekki að bíða lengi í seinni hálfleik eftir næsta marki. Það skoraði Berglind Björg, sitt annað í leiknum, eftir glæsilegt spil hjá Hildi og Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur. Staðan 5:0 og enn 40 mínútur eftir af leiknum.

Hildur skoraði svo sjálf sitt annað mark eftir klukkutíma leik þegar hún fékk góða stungusendingu frá Selmu og lagði boltann vel í netið. Staðan orðin 6:0. Örskömmu síðar fullkomnaði Berglind þrennu sína. Áslaug Munda komst þá upp að endamörkum, fann Berglindi í teignum sem kláraði glæsilega í hornið. Staðan 7:0 á 65. mínútu.

Áttunda markið kom stuttu síðar og enn var það Áslaug Munda sem komin var fram vinstri kantinn. Í þetta sinn fann hún Karólínu Leu í teignum sem lagði boltann í hornið. Staðan 8:0. Berglind skoraði svo níunda markið, sitt fjórða í leiknum, tæpum tíu mínútum fyrir leikslok eftir sendingu Alexöndru Jóhannsdóttir, sem sjálf skoraði tíunda markið eftir hornspyrnu. Staðan 10:0 fimm mínútum fyrir leikslok.

Blikarnir voru þó alls ekki hættir og Selma Sól skoraði ellefta markið með góðu skoti rétt utan teigs skömmu síðar, hennar annað mark í leiknum. Það reyndist síðasti naglinn í kistu Dragon og lokatölur 11:0.

Alexandra kýld í andlitið

Það var á köflum alveg fáránlegt að sjá tilburði leikmanna Dragon. Þær bæði hentu sér niður eftir návígi og mjólkuðu meiðsli sín mikið. Verst var þó hvernig leikmenn hreinlega hættu að spila fótbolta og hugsuðu bara um að negla í andstæðinginn.

Hildur Antonsdóttir fékk til að mynda að finna fyrir því þegar andstæðingur sparkaði ítrekað aftan í hana án þess að reyna að vinna boltann. Viðkomandi fékk aðeins tiltal. Þá var haldið og rifið í Ástu Eir Árnadóttur í bakverðinum þegar andstæðingur ætlaði að hlaupa framhjá henni. Viðkomandi var dæmd brotleg, en ekkert meira.

Ekki batnaði staðan eftir hlé. Í eitt skiptið var Áslaug Munda komin framhjá andstæðingi, sem togaði bara fast í treyjuna hennar og stöðvaði hana þannig. Versta atvikið kom svo tíu mínútum fyrir leikslok. Alexandra Jóhannsdóttir náði skalla að marki, en var um leið kýld í andlitið af markverði Dragon sem komin var langt út úr markinu. Það sáu það allir á vellinum en dómarinn gerði ekkert.

Og það var sagan allan leikinn. Það var sama hvað gert var, dómari leiksins varla dæmdi brot og gaf einstöku sinnum tiltal. Það var þó gott að sjá að Blikaliðið lét þetta ekki trufla sig of mikið heldur hélt velli og svaraði með því að skora mörkin í leiknum, 11:0!

Síðasti leikurinn á þriðjudag

Breiðablik mætir heimaliði Sarajevo í lokaleiknum á laugardag. Sarajevo vann Dragon 5:0 í fyrsta leik og mætir ASA Tel Aviv síðar í dag, sem Blikar unnu 4:1. Efsta liðið í riðlinum kemst áfram í 32ja liða úrslit.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is frá Sarajevó sem má sjá hér að neðan.

Breiðablik 11:0 Dragon opna loka
90. mín. Esther Rós Arnarsdóttir (Breiðablik) á skot framhjá Berglind leggur boltann glæsilega á Esther sem lætur vaða, en yfir markið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka