Komið að KR að eiga slæman kafla

Viktor Örn Margeirsson.
Viktor Örn Margeirsson. mbl.is/Hari

Viktor Örn Margeirsson, leikmaður Breiðabliks, var að vonum sáttur þegar mbl.is náði tali af honum eftir 2:1-sigur á ÍA í Pepsi Max-deildinni í knattspyrnu í dag.

Blikar skoruðu tvö mörk snemma leiks og spiluðu heilt yfir vel á Skaganum í dag, sérstaklega í fyrri hálfleik. „Við spilum eiginlega bara óaðfinnanlega í fyrri hálfleik fyrir utan einhver tvö atvik, svo veit ég ekki alveg hvað gerist í seinni en við börðumst vel,“ sagði Viktor. Skagamenn minnkuðu muninn úr vítaspyrnu sem Steinar Þorsteinsson fiskaði en nær komust heimamenn ekki því að jafna metin. „Persónulega fannst mér þetta alls ekki víti og Steini hló að þessu líka en dómarinn dæmir.“

Breiðablik hefur nú unnið tvo leiki í röð eftir erfiðar vikur þar á undan og eru nú sjö stig í topplið KR sem tapaði sínum leik í dag. Viktor segir allt geta gerst í toppbaráttunni.

„Við rifum okkur upp í seinasta leik gegn KA og það er gott að tengja saman tvo sigra núna. Ef KR-ingarnir ætla að tapa stigum og við byrjum að vinna aftur þá getur allt gerst. Það hafa sennilega öll lið átt slæma kafla í deildinni hingað til nema KR, er ekki bara komið að þeim?“

Breiðablik og KR mætast í Kópavoginum í lokaumferðinni en það er þó of snemmt að fara huga strax að því. „Ég væri til í að vinna KR í úrslitaleik þar og taka dolluna en það er bara einn leikur í einu og við verðum að vinna þann næsta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka