Endurtekið efni frá síðasta leik

Gunnar Þorsteinsson í leiknum í kvöld.
Gunnar Þorsteinsson í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gunnar Þorsteinsson, fyrirliði Grindavíkur, sagði slæma byrjun liðsins gegn Fylki í kvöld vera endurtekið efni frá síðasta leik gegn KR. 

Fylkir hafði betur 2:1 eftir að hafa komist í 2:0 á fyrsta kortérinu. 

„Þetta var svolítið endurtekið efni frá síðasta leik á móti KR en þá byrjuðum við einnig voða illa. Við höfum verið í svolitlum vandræðum í útileikjunum í allt sumar. En þetta var vel gert hjá Fylkismönnum. Þeir mættu vel gíraðir og ætluðu sér að slökkva í glæðunum strax. Sem þeir gerðu. Það er erfitt að koma til baka gegn Fylki verandi 2:0 undir. Þeir eru erfiðir heim að sækja. Við náðum ekki að skapa okkur nógu góð færi þótt vissulega höfum við skapað eitthvað. Við sluppum einu sinni einir í gegn og áttum skalla í stöng í seinni hálfleik. En þetta er rosalega svekkjandi,“ sagði Gunnar þegar mbl.is ræddi við hann í Árbænum. 

„Við höfum ekki unnið leik á útivelli og það segir held ég alla söguna. Við höfum bara tapað einum heimaleik. Við erum í hörkubrasi á útivöllum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert