„Ég á erfitt með að svara því þar sem ég er of reiður til að pæla í því. Þetta var hugarfarið eða eitthvað. Þetta var skelfilegt," sagði afar svekktur Guðjón Pétur Lýðsson, miðjumaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 1:3-tap fyrir Víkingi R. í undanúrslitum Mjólkurbikarsins í fótbolta í kvöld.
Hann viðurkennir að Víkingur hafi lagt leikinn vel upp, á meðan Breiðablik spilaði ekki vel.
„Þeir gerðu vel í að matcha okkur, þeir voru með tígulmiðju og lokuðu á miðsvæðið og hleyptu okkur upp vængina. Mér fannst við ekki svara því nógu vel og vorum of lengi að koma boltanum á milli kanta þar sem plássin voru og því fór sem fór. Þeir gerðu þetta vel og við vorum ekki á okkar besta degi."
Guðjón var allt annað en sáttur við Þorvald Árnason, dómara leiksins og sendum honum langa pillu eftir leik. Hann var sérstaklega ósáttur við það sem Kári Árnason komst upp með í leiknum.
„Við reyndum allan tímann að gera eins mikið og við gátum en því miður var þetta ekki okkar dagur. Mér fannst Þorvaldur líka ömurlegur. Hann leyfði þeim að tefja allan seinni hálfleikinn og var skíthræddur við þá.
Honum fannst eitthvað erfitt að tala við Kára. Kári sparkaði með hnéð í andlitið á mér en hann þorði ekki að dæma spjald. Hann hamraði niður í lokin, boltinn löngu farinn, en aftur þorði hann ekki að rífa upp spjaldið. Hann var tefjandi allan leikinn en hann reif aldrei upp spjald, dómarinn var glataður," sagði Guðjón pirraður.
Gunnleifur Gunnleifsson, markmaður Breiðabliks, fékk gult spjald fyrir mótmæli eftir að Óttar Magnús Karlsson jafnaði leikinn beint úr aukaspyrnu. Blikar voru ósáttir við aukaspyrnudóminn.
„Höskuldur sparkar boltanum og Víkingurinn er með hausinn nánast í jörðinni þegar hann sparkar. Ég veit ekki hvort þetta var aukaspyrna, mér finnst það ekki aukaspyrna þegar leikmaður fer með hausinn niður í jörðina," sagði Guðjón Pétur.