„Guðjón Pétur? Hver er það?“

Kári Árnason
Kári Árnason mbl.is/Árni Sæberg

„Mér líður mjög vel. Þetta er akkúrat það sem við lögðum upp með," sagði Kári Árnason, leikmaður Víkings, í samtali við mbl.is eftir 3:1-sigur á Breiðabliki í undanúrslitum Mjólkurbikarsins í fótbolta í kvöld. 

Breiðablik komst í 1:0 á 35. mínútu en tíu mínútum síðar var staðan orðin 2:1 fyrir Víkingi. „Það gekk allt óskum. Auðvitað fengum við mark á okkur sem var óheppilegt, en við komum sterkir til baka og kláruðum þetta. Það er búið að vera mikill stígandi í þessu hjá okkur og það var sterkt að koma til baka í stöðunni 1:0."

Blikar létu mótlætið fara illa með sig og fékk Elfar Freyr Helgason m.a beint rautt spjald fyrir ljótt brot undir lokin. „Þeir voru búnir að missa þetta í algjört rugl og það er eins og það er. Hann er réttilega rekinn út af og fleiri hefðu getað fokið út af. Það er hiti í þessu og það er allt í lagi."

Guðjón Pétur Lýðsson, leikmaður Breiðabliks, var ekki sáttur við dómgæsluna í kvöld og var hann sérstaklega ósáttur við hversu mikið Kári komst upp með í leiknum. 

„Guðjón Pétur? Hver er það? Væntanlega leikmaður? Hann má segja það sem hann vill," sagði Kári um miðjumanninn. 

Áður en viðtalið hófst, sakaði Gunnleifur Gunnleifsson, markmaður Breiðabliks, Kára um að kýla Guðjón Pétur eftir leik. Kári sagði að svo væri ekki. „Þetta voru bara einhverjar hrindingar, þetta var ekkert alvarlegt," sagði Kári að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert