Hef engan áhuga á að tapa þriðja úrslitaleiknum

Þórunn Helga Jónsdóttir, fyrirliði KR, og Anna María Friðgeirsdóttir, fyrirliði …
Þórunn Helga Jónsdóttir, fyrirliði KR, og Anna María Friðgeirsdóttir, fyrirliði Selfoss, með bikarinn sem keppt er um á laugardag. mbl.is/Andri Yrkill

„Það er mikil stemning í bæjarfélaginu og mikil spenna,“ segir Anna María Friðgeirsdóttir, fyrirliði knattspyrnuliðs Selfoss, í samtali við mbl.is í aðdraganda bikarúrslitaleiks Selfoss og KR á Laugardalsvelli á laugardaginn.

Anna María er á leið með Selfossi í þriðja bikarúrslitaleikinn í sögu félagsins. Liðið spilaði til úrslita 2014 og 2015 en tapaði í bæði skiptin fyrir Stjörnunni. Það er því aðeins eitt sem kemur til greina á laugardag og hún er hungruð í langþráðan bikar.

„Alveg virkilega hungruð. Ég hef engan áhuga á því að tapa þriðja bikarúrslitaleiknum, ef ég á að segja alveg eins og er,“ segir Anna María og telur lykilinn að því að vinna leikinn vera að halda áfram því sem gengið hefur vel í sumar.

„Við þurfum að spila þéttan og góðan varnarleik og gera eins og við höfum verið að gera svo vel í sumar. Halda okkar skipulagi. Við erum búnar að vinna þær einu sinni og það var hörkuleikur á Selfossvelli. Þær eru með hrikalega flott lið og eru kannski búnar að vera óheppnar með úrslit í sumar. Ég býst við hörkuleik á Laugardalsvelli,“ segir Anna María.

Fríar rútuferðir frá Selfossi

Með Önnu Maríu í bikarúrslitaleikjunum 2014 og 2015 spilaði Guðmunda Brynja Óladóttir sem þá var fyrirliði Selfoss, en hún er nú í liði KR eftir að hafa verið í Stjörnunni í millitíðinni. Verður skrítið að mæta henni í bikarúrslitaleik?

„Já ég mætti henni í Stjörnubúningnum í fyrra og það var skrítið, ég ætla ekki að skafa neitt af því. En hún verður eins og hver annar leikmaður á laugardaginn og svo getum við bara spjallað saman eftir leik.“

Anna María segist vonast til þess að sjá sem flesta á leiknum á laugardag, en flautað verður til leiks klukkan 17. Það er ljóst að Selfyssingar munu ekki láta sitt eftir liggja í stúkunni eins og var í úrslitaleikjunum 2014 og 2015.

„Það verður hrikalega flott upphitun á Selfossi og Gummi Tyrfings býður upp á fríar rútuferðir í bæinn. Ég býst við enn þá fleirum núna,“ segir Anna María Friðgeirsdóttir, fyrirliði Selfoss, við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert