Breiðablik og Valur gerðu jafntefli í fjörugum markaleik, 3:3, í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu á Kópavogsvellinum í kvöld.
Breiðablik er í öðru sæti deildarinnar með 30 stig og Valur í sjötta sæti með 24 stig. Breiðablik er níu stigum á eftir toppliði KR sem vann sinn leik í kvöld og er með 39 stig.
Valsmenn voru frábærir fyrstu 25 mínútur leiksins eða svo og virtust ætla að leika sér að Blikunum. Í það minnsta voru þeir komnir 2:0 yfir eftir aðeins 19 mínútur með mörkum frá Birki Má Sævarssyni og Patrick Pedersen.
Blikar voru lengi í gang en þegar þeir fundu leiðina að markinu þá voru þeir innan við fimm mínútur að jafna. Brynjólfur Darri Willumsson minnkaði muninn á 37. mínútu og Andri Rafn Yeoman jafnaði á 41. mínútu með sérlega glæsilegu skoti eftir horn.
Staðan var því 2:2 að loknum fyrri hálfleik. Leikurinn var rólegur fyrsta korterið í seinni en Blikarnir voru beittari og á heildina litið betri í síðari hálfleik. Brynjólfur skoraði sitt annað mark á 61. mínútu eftir klaufagang í Valsvörninni.
Þótt Valsmenn hafi ekki skapað sér mörg færi í síðari hálfleik þá náðu þeir engu að síður að jafna og það gerði fyrirliðinn Haukur Páll Sigurðsson með góðum skalla á 69. mínútu.
Breiðablik var nær því að skora á lokakaflanum en tókst ekki. Seigla í Blikum að vinna upp forskot Vals án tveggja fastamanna, Elfars Freys Helgasonar og Thomasar Mikkelsens.