Knattspyrnuþjálfarinn Heimir Guðjónsson er á heimleið samkvæmt heimildum mbl.is. Heimir hefur stýrt liði HB í færeysku úrvalsdeildinni frá árinu 2017 en liðið varð færeyskur meistari síðasta sumar.
Heimildir mbl.is herma að fjölskylda þjálfarans sé nú að flytja aftur til Íslands og að Heimir muni snúa aftur til Íslands þegar deildin í Færeyjum klárast í október. HB er sem stendur í fjórða sæti deildarinnar með 38 stig, fjórum stigum minna en topplið NSÍ.
Heimir stýrði liði FH á árunum 2008 til ársins 2017 og varð liðið fimm sinnum Íslandsmeistari undir stjórn þjálfarans og einu sinni bikarmeistari. Samkvæmt heimildum mbl.is hafa nokkur lið í efstu deild hug á því að ræða við þjálfarann þegar hann kemur aftur til landsins.