Sá þriðji í þrjúhundruð leiki

Gunnleifur Gunnleifsson.
Gunnleifur Gunnleifsson. mbl.is/Hari

Gunnleifur Gunnleifsson markvörður og fyrirliði Breiðabliks varð í kvöld þriðji knattspyrnumaðurinn frá upphafi sem nær að leika 300 leiki í efstu deild á Íslandi.

Gunnleifur ver mark Breiðabliks gegn FH en leikur liðanna er nýhafinn á Kaplakrikavelli, sem var einmitt heimavöllur hans í þrjú ár. Gunnleifur lék með FH 2010 til 2012 en þar varð hann bæði Íslands- og bikarmeistari.

Hann lék annars fyrst í efstu deild með KR árið 1998 og varð Íslandsmeistari með liðinu ári síðar. Gunnleifur varði mark Keflavíkur árin 2000 og 2001 en fór síðan til uppeldisfélags síns, HK, og spilaði þar frá 2002 til 2009. Þar voru meðtalin tvö fyrstu ár HK í úrvalsdeildinni, Gunnleifur spilaði 39 af 40 leikjum liðsins og er enn leikjahæsti leikmaður félagsins í deildinni.

Gunnleifur, sem varð 44 ára í júlí, hefur leikið með Breiðabliki frá árinu 2013 og spilað 149 af 150 mögulegum leikjum liðsins í deildinni á þeim tíma.

Þeir einu sem áður hafa náð 300 leikjum í efstu deild eru methafinn Birkir Kristinsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður, sem lék 321 leik í deildinni með KA, ÍA, Fram og ÍBV frá 1984 til 2006, og Óskar Örn Hauksson, fyrirliði KR-inga, sem í gær lék sinn 305. leik í deildinni.

Þá á Gunnleifur leikjametið í íslensku deildakeppninni í heild sinni en þar hefur hann nú leikið 435 leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert