Hrukku í gang í síðari hálfleik

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu byrjaði undankeppni EM 2021 á sannfærandi 4:1-sigri gegn Ungverjalandi á Laugardalsvelli í kvöld. Staðan í hálfleik var 1:1 en í seinni hálfleik mætti ákveðið íslenskt lið til leiks sem gjörsamlega valtaði yfir Ungverja.

Íslenska liðið byjaði leikinn af krafti og þær Agla María Albertsdóttir og Hlín Eiríksdóttir, kantmenn liðsins, sóttu báðar sitt hvora hornspyrnuna á fyrstu tíu mínútum leiksins, sem ekkert varð úr. Á 9. mínútu átti svo Hallbera Guðný Gísladóttir frábæran sprett upp vinstri kantinn sem endaði með fyrirgjöf sem fór beint í lappirnar á Elínu Mettu Jensen. Elín Metta tók boltann niður í teignum af mikill yfirvegun og þrumaði honum svo með vinstri fæti í hornið niðri og staðan orðin 1:0. Leikurinn róaðist mikið eftir þetta, íslenska liðið hélt boltanum vel innan liðsins, á meðan Ungverjar vörðust vel aftarlega á vellinum. Henrietta Csiszár átti fyrstu marktilraun Ungverja en skot hennar, rétt utan teigs, var laust og fór beint á Söndru Sigurðardóttur í marki Íslands.

Á 36. mínútu átti Elín Metta Jensen hörskuskot, rétt utan teigs, sem fór beint á Réku Szöcs í marki Ungverja. Á 41. mínútu tapaði íslenska liðið boltanum á vallarhelmingi Ungverja. Fanni Vágó brunaði upp völlinn og átti hnitmiðaða stungusendingu á Csiszár sem fór meistaralega framhjá Söndru í markinu og skoraði af öryggi og staðan orðin 1:1. Agla María átti frábæra aukaspyrnu á lokamínútum fyrri hálfleiks á Dagnýju Brynjarsdóttir en frítt skot hennar af stuttu færi úr teignum var meistarlega varið af Szöcs í marki Ungverja og staðan því 1:1 í hálfleik.

Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn af gríðarlega miklum krafti og strax á 48. mínútu átti Sara Björk Gunnarsdóttir skalla að marki sem Réka Szöcs varði út í teiginn. Frákastið datt fyrir Hlín Eiríksdóttur en skot hennar fór af varnarmanni og aftur fyrir. Skömmu síðar átti Glódís Perla Viggósdóttir skalla að marki eftir hornspyrnu sem var á leiðinni upp í samskeytin en Szöcs varði meistaralega í marki Ungverja. Á 54. mínútu slapp Dagný Brynjarsdóttir í gegn eftir stungusendingu Elínar Mettu en skot hennar fór beint á Szöcs. Frákastið datt fyrir Elínu Mettu sem fór niður í teignum og vildi vítaspyrnu en ekkert dæmt.

Fimm mínútum síðar átti Agla María frábæra sendingu frá vinstri á Elínu Mettu sem tók boltann niður, vinstra megin í teignum. Elín Metta renndi boltanum út í teiginn og þar var Hlín mætt og hún kláraði snyrtilega í fjærhornið af stuttu færi úr teignum og staðan orðin 2:1. Mínútu síðar komu þær Fanndís Friðriksdóttir og Svava Rós Guðmundsdóttir inn á og þær hleyptu miklu lífi í sóknarleik Íslands. Svava Rós átti skot í stöng á 63. mínútu og tveimur mínútum síðar átti Svava fast skot að marki, frá vítateigshorninu, sem Szöcs varði út í teiginn. Þar var mætt Dagný Brynjarsdóttir og hún kláraði í opið markið af stuttu færi og staðan orðin 3:1.

Á 71. mínútu slapp Fanndís Friðriksdóttir ein í gegn eftir lalegt einstaklingsframtak en skot hennar var slakt og fór beint á Szöcs í marki Ungverja. Tveimur mínútum síðar átti Fanndís frábæra sendingu fyrir markið sem Svava Rós skallaði í hliðarnetið af stuttu færi úr teignum. Eftir þetta róaðist leikurinn mikið og bæði lið fengu ágætis hálffæri, án þess þó að skapa sér afgerandi marktækifæri. Í uppbótartíma átti Svava Rós fasta sendingu frá hægri inn í teiginn sem Szöcs í marki Ungverja náði ekki að halda. Elín Metta var fyrst að átta og stýrði boltanum í opið markið úr markteignum og Ísland fagnaði sannflærandi sigri.

Ísland 4:1 Ungverjaland opna loka
90. mín. Margrét Lára Viðarsdóttir (Ísland) á skot framhjá Margrét Lára að sleppa en hún þarf að teygja sig í boltann í skotinu og hann rúllar framhjá markinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka