Breiðablik fékk Fylki í heimsókn í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Kópavogsvöll í kvöld. Leiknum lauk með 4:3 sigri heimamanna, sem eygja enn tölfræðilega möguleika á því að ná KR-ingum.
Fyrsta mark leiksins kom á 9. mínútu. Þá léku Blikar lipurlega upp hægri vænginn og boltinn barst út í teiginn á Guðjón Pétur Lýðsson sem hitti hann alls ekki. Það kom hins vegar ekki að sök nema síður sé, því boltinn rann áfram út fyrir teiginn og þar kom Andri Rafn Yeoman á ferðinni og lagði hann ótrúlega snyrtilega með hægri fæti í hægra markhornið.
Stuðningsmenn heimamanna voru svo vart búnir að fá sér sæti og hættir að klappa er annað mark Blika kom. Þá átti Viktor Örn Margerisson langa sendingu fram völlinn á Höskuld Gunnlaugsson sem var nærri vítateigshorninu vinstra megin á vellinum. Höskuldur gerði allt rétt, lagði skoppand boltann skemmtilega fyrir sig, lék framhjá varnarmanni Fylkis og skoraði með föstu skoti í nærhornið.
Blikar stjórnuðu leiknum áfram og náði að bæta við marki fyrir leikhlé. Það gerði Daninn Thomas Mikkelsen með frábæru skoti utan teigs sem söng í netinu.
3:0 í hálfleik og fátt virtist geta komið í veg fyrir öruggan Blikasigur, Fylkismenn voru arfaslakir.
Þegar seinni hálfleikur hófst héldu Blikar áfram að þjarma að Árbæingum. Alfons Samsted kom heimamönnum í 4:0 á 47. með marki úr teignum og úrslitin virtust alfarið ráðin.
Geoffrey Castillion lagaði stöðuna fyrir Fylkismenn með fínu marki úr teignum á 64. mínútu. Tæpum tíu mínútum síðar varð svo ákveðinn vendipunktur í leiknum, er Viktor Örn Margeirsson var rekinn af velli fyrir að slá frá sér í teignum eftir að sóknarmaður Fylkis hljóp á hann. Einnig var vítaspyrna dæmd, en boltinn var víðsfjarri er atvikið átti sér stað.
Castillion fór á punktinn en Gunnleifur varði spyrnu hans vel. Örskömmu seinna, á 74. mínútu, skoraði Castilllion þó sitt annað mark og bætti upp fyrir vítaklúðrið. Þá fékk hann fyrirgjöf frá hægri og skoraði af stuttu færi.
Fylkismenn reyndu hvað þeir gátu að bæta við marki en ekkert virtist ætla að ganga. Blikar gerðu hvað þeir gátu til þess að minnka hraða leiksins og héldu boltanum ágætlega ofarlega á vellinum. Það var ekki fyrr en í uppbótartíma sem þriðja mark þeirra kom – og aftur var það Castillion, nú með góðu skoti af vítateigslínunni.
Árbæingar náðu ekki að þrýsta inn fjórða markinu þrátt fyrir góðar tilraunir, meðal annars stangarskot á allra síðustu andartökum leiksins, og lokatölurnar urðu 4:3.
Það verður að teljast sanngjarnt þó Fylkismenn hafi sýnt hvað í þeim býr síðasta hálftímann.