Andlát: Atli Eðvaldsson

Atli Eðvaldsson er látinn, 62 ára að aldri.
Atli Eðvaldsson er látinn, 62 ára að aldri. mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Atli Eðvaldsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari, landsliðsfyrirliði og atvinnumaður í knattspyrnu, lést í dag 62 ára að aldri eftir baráttu við krabbamein. Atli fæddist í Reykjavík 3. mars 1957.

Knattspyrnusamband Íslands tilkynnti andlátið fyrir stundu. Leikmenn íslenska kvennalandsliðsins leika með sorgarbönd gegn Slóvakíu í kvöld til að minnast Atla. Dóttir hans, Sif, verður ekki með liðinu en landsleikur þjóðanna hefst kl. 18.45 á Laugardalsvelli.

Atli lék á sínum tíma 70 landsleiki fyrir Ísland, var um skeið leikjahæsti landsliðsmaður Íslands, og þjálfaði landsliðið frá 2000 til 2003. Hann hóf meistaraflokksferilinn með Val árið 1974 og lék 93 deildarleiki fyrir liðið á sex árum, þar sem hann skoraði 31 mark. Á þeim árum varð hann tvisvar Íslandsmeistari og þrisvar bikarmeistari.

Árið 1980 samdi hann við stórliðið Borussia Dortmund í Þýskalandi og var þar í eitt tímabil. Þaðan lá leiðin til Fortuna Düsseldorf þar sem hann lék 122 leiki og skoraði 38 mörk frá 1981 til 1985. Þá skoraði hann fyrstur erlendra leikmanna fimm mörk í einum leik í þýsku Bundesligunni, í 5:1-sigri á Eintracht Frankfurt.

Eftir það lék hann með Uerdingen í Bundesligunni frá 1985 til 1988 og hafði að þeim tíma liðnum skorað 59 mörk í 224 leikjum í deildinni.

Atli kom þá heim og lék með Val 1988 og 1989 þar sem hann varð bikarmeistari í fjórða sinn og skoraði sigurmarkið í óvæntum sigri Vals á Mónakó í Evrópuleik. Atli lék hluta tímabilsins 1988-89 með TuRU Düsseldorf í Þýskalandi og síðan með Genclerbirligi í Tyrklandi veturinn 1989-1990. Atli lék með KR í fjögur tímabil frá 1990 til 1993 og skoraði 16 mörk í 48 leikjum. 

Atli tók til við þjálfun eftir leikmannsferilinn og tók fyrst við HK þar sem hann var spilandi þjálfari árið 1994. Hann tók síðan við ÍBV þar sem hann var við stjórn frá 1995 til 1996, áður en hann fór til Fylkis í eitt ár. Frá 1998 til 1999 var hann þjálfari KR, en tók svo við íslenska karlalandsliðinu, sem hann þjálfaði frá 1999 til 2003. KR vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í 31 ár undir stjórn Atla árið 1999 og varð jafnframt bikarmeistari.

Atli þjálfaði Þrótt í Reykjavík frá 2005 til 2006, en tók sér svo frí frá þjálfun, áður en hann tók við Val 2009. Hann þjálfaði Reyni Sandgerði 2013, Aftureldingu 2014 og svo að lokum Kristianstad í Svíþjóð 2017 og Hamar í Hveragerði sumarið 2018.

Foreldrar Atla voru Eðvald Hinriksson og Sigríður Bjarnadóttir og systkini hans eru Jóhannes og Anna. Atli lætur eftir sig fjögur börn, Egil, Sif, Emil og Söru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert