Rapp farin frá Selfyssingum í frönsku deildina

Grace Rapp í leik með Selfyssingum.
Grace Rapp í leik með Selfyssingum. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Grace Rapp, sóknarmaður nýkrýndra bikarmeistara Selfoss í knattspyrnu, er farin frá liðinu og gengin í raðir franska fyrstudeildarliðsins Stade de Reims. Vefurinn sunnlenska.is greinir frá þessu.

Rapp kom til Selfossliðsins á miðju tímabili 2018. Hún kom við sögu í 19 leikjum liðsins í deild og bikar og skoraði í þeim sjö mörk, þar af fjögur í Pepsi Max-deildinni þar sem Selfoss er í þriðja sæti.

Stade de Reims er nýliði í frönsku 1. deildinni en liðið hefur leikið í neðri deildum undanfarin ár. Félagið var sigursælt á árum áður og varð meðal annars franskur meistari fimm sinnum á árunum 1975-1982.

Stade de Reims tapaði fyrir Montpellier í fyrstu umferð frönsku 1. deildarinnar um síðustu helgi en Rapp gæti leikið sinn fyrsta leik um næstu helgi þegar liðið tekur á móti Evrópumeisturum Lyon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert