Íslendingar eru komnir á toppinn í H-riðlinum í undankeppni EM í knattspyrnu, væntanlega þó aðeins um stundarsakir, eftir öruggan 3:0-sigur gegn Moldóvum á blautum degi á Laugardalsvelli í dag.
Þetta var þriðji sigur íslenska liðsins í undankeppninni í röð en það fagnaði sigri gegn Albönum og Tyrkjum á Laugardalsvellinum í júní í sumar. Ísland er með 12 stig eftir fimm leiki í riðlinum, þremur stigum á undan heimsmeisturum Frakka og Tyrkjum en báðar þessar þjóðir verða í eldlínunni síðar í kvöld. Frakkar taka á móti Albönum og Tyrkir fá Andorramenn í heimsókn.
Eftir tíðindalítinn fyrsta hálftíma leiksins þar sem jafnræði var með liðunum skoraði Kolbeinn Sigþórsson fyrsta mark Íslands á 31. mínútu. Hann fékk laglega hælsendingu frá Jóni Daða Böðvarssyni og skoraði með hnitmiðuðu vinstrifótarskoti í hornið. Afar snyrtileg afgreiðsla hjá þessum mikla markaskorara sem skoraði þar með sitt fyrsta mark á Laugardalsvelli síðan hann gerði það í vináttuleik gegn Liechtenstein í júní 2016 og 24. mark sitt með landsliðinu. Hann vantar tvö til viðbótar til að jafna markamet Eiðs Smára Guðjohnsen.
Góð samvinna hjá framherjunum, sem léku síðast saman í byrjunarliði gegn Frökkum í átta liða úrslitunum á EM 2016. Markið kveikti í íslenska liðinu sem hótaði nokkrum sinnum að bæta við öðru marki. Gylfi átti tvær góðar tilraunir en tókst ekki að skora og staðan í hálfleik var 1:0.
Birkir Bjarnason tvöfaldaði forystu Íslands á 55. mínútu. Ari Freyr tók hornspyrnu, Ragnar Sigurðsson átti fastan skalla sem markvörðurinn varði en Birkir náði frákastinu og hamraði boltanum upp í þaknetið. 12. landsliðsmark hans staðreynd.
Á 77. mínútu innsiglaði Jón Daði Böðvarsson sigur íslenska liðsins. Eftir vel útfærða sókn sendi Ari Freyr fyrir markið og eftir klafs fór boltinn af fæti Jóns Daða og í netið. Þriðja landsliðsmark Selfyssingsins sem var búinn að bíða lengi eftir því.
Tíu af leikmönnum Íslands í byrjunarliðinu í dag léku stór hlutverk á Evrópumótinu í Frakklandi árið 2016 en níu af þeim ellefu sem byrjuðu í dag voru í byrjunarliðinu í öllum leikjum Íslands á EM.
Landsliðið heldur um miðjan dag á morgun í beinu flugi til Albaníu og mætir heimamönnum þar á þriðjudagskvöldið.