Voðalega ljótt mark en við tökum það

Jón Daði Böðvarsson í leiknum í dag.
Jón Daði Böðvarsson í leiknum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Daði Böðvarsson lék vel fyrir íslenska landsliðið í fótbolta í sannfærandi 3:0-sigri á Moldóvu á Laugardalsvelli í undankeppni EM 2020 í dag. Í samtali við mbl.is eftir leik var Jón Daði ánægður með gott dagsverk. 

„Þetta var mjög flott. Fyrstu 10-15 mínúturnar vorum við aðeins að fá tilfinninguna fyrir þeim og svo fáum við þetta fyrsta mark sem var gríðarlega mikilvægt. Það setur tóninn fyrir restina af leiknum og ég er virkilega ánægður. Við vissum ekki mjög mikið um leikskipulagið þeirra og maður þurfti að fá tilfinninguna fyrir þeim í byrjun, svo gerðum við það og náðum seiglusigri.“

Jón Daði og Kolbeinn Sigþórsson léku saman frammi í leiknum, en þeir voru framherjapar landsliðsins sem tryggði sér sæti á EM 2016 og léku þeir saman frammi alla lokakeppnina. 

„Það er frábært að spila með Kolla, við vitum öll hvað hann getur og hann á enn nóg eftir á tankinum. Hann átti mjög góðan dag í dag og það er mjög þægilegt að vera með honum uppi á topp. Hann er alltaf sami góði gamli Kolli. Það er þægilegt að vera í kringum hann og það hefur ekki mikið breyst. Hann þarf að komast á ról, en það sást ekki á honum í dag að hann væri eitthvað eftir á.“

Þriðja mark Íslands var upprunalega skráð sem sjálfsmark, en Jón Daði segir markið vera sitt. 

„Þetta fór 100% í mig, en þetta gerðist svo hratt og ég var eitthvað ringlaður. Þetta var ljótt mark og það er týpískt þegar maður gengur í gegnum þurrk að fá eitt svona mark sem framherji. Ég er heiðarlegur maður og ég tek þetta allan daginn. Ég vildi vera viss um að dómarinn myndi skrá það á mig og held hann hafi gert það. Þetta var voðalega ljótt mark en við tökum þetta.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert