Elín Metta Jensen landsliðsframherji úr Val var besti leikmaðurinn í 15. umferð úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu að mati Morgunblaðsins.
Umferðinni lauk í fyrradag þegar ÍBV sendi HK/Víking niður í 1. deild með 3:1-sigri í leik liðanna í Vestmannaeyjum.
Aðrir leikir fimmtándu umferðar voru leiknir sunnudaginn 25. ágúst en þá þurfti að fresta ofangreindum leik vegna veðurs.
Elín Metta skoraði tvö marka Vals í 5:1-útisigri gegn Fylki og var eini leikmaðurinn í umferðinni sem fékk 2 M fyrir frammistöðu sína hjá Morgunblaðinu. Þetta er í annað sinn í sumar sem Elín er valin best en hún varð líka fyrir valinu í 6. umferð deildarinnar. Hún er markahæsti leikmaður deildarinnar ásamt samherja sínum Hlín Eiríksdóttur en þær hafa skorað 16 mörk hvor fyrir Val.
Sjá má greinina í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag þar sem útnefndur er leikmaður 15. umferðar, besti ungi leikmaður 15. umferðar og birt úrvalslið Morgunblaðsins úr umferðinni.