Leiknir F. og Vestri upp í 1. deild

Leiknir Fáskrúðsfirði er meistari 2. deildar karla í knattspyrnu eftir 3:1-sigur í grannaslagnum gegn Fjarðabyggð. Ásamt Leikni fer Vestri upp í 1. deildina eftir að hafa burstað Tindastól 7:0 en lokaumferðinni var að ljúka rétt í þessu. Lið KFG og Tindastóls falla úr deildinni en það var vitað fyrir lokaumferðina.

Þrjú lið voru í baráttunni um að komast upp um deild en Leiknir og Vestri voru í efstu tveimur sætunum fyrir umferðina. Leiknismenn heimsóttu nágranna sína í Fjarðabyggð á Eskjuvöll og þurftu sigur til að vinna deildina. Það voru hins vegar heimamenn sem skoruðu fyrsta markið, Jose Vidal kom Fjarðabyggð yfir eftir 20 mínútna leik.

Staðan var 1:0 í hálfleik en gestirnir voru snöggir að snúa taflinu við eftir hlé. Unnar Ari Hansson jafnaði metin á 48. mínútu og Guðmundur Arnar Hjálmarsson kom þeim yfir eftir klukkutíma leik. Daniel Garcia innsiglaði svo sigurinn undir lok leiks og tryggði Leiknismönnum meistaratitilinn.

Vestri þurfti sigur gegn löngu föllnu botnliði Tindastóls til að tryggja sér sæti í 1. deild og heimamenn unnu öruggan sigur á Olísvellinum. Hammed Obafemi Lawal kom Vestra yfir strax á 3. mínútu áður en Issac Da Silva og Zoran Plazonic bættu við mörkum en þar á milli gerðu gestirnir sjálfsmark, staðan 4:0 í hálfleik. Þórður Gunnar Hafþórsson, Joshua Signey og Daníel Agnar Ásgeirsson skoruðu svo eftir hlé til að tryggja stórsigurinn og jafnframt sæti Vestra í 1. deild.

Selfyssingum mistókst að komast strax aftur upp um deild en þeir féllu úr 1. deildinni í fyrra. Selfoss vann 2:0-útisigur gegn Kára í lokaumferðinni í dag þökk sé tveimur mörkum Hrvoje Tokic í Akraneshöllinni en það dugði ekki til. Selfyssingar þurftu að treysta á að annað toppliðanna misstigi sig.

Leiknir endaði með 46 stig, Vestri fékk 45 og Selfoss sat eftir með 44 stig í þriðja sætinu. Víðir úr Garði hafnaði síðan í fjórða sæti með 39 stig eftir sigur á Dalvík/Reyni, 2:1, í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert