Metnaðarlaus og óábyrg fréttamennska

Gunnar Heiðar Þorvaldsson lagði skóna á hilluna árið 2018 eftir …
Gunnar Heiðar Þorvaldsson lagði skóna á hilluna árið 2018 eftir afar farsælan feril. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Fyrrverandi knattspyrnukappinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson var á dögunum orðaður við þjálfarastöðuna hjá karlaliði ÍBV í hlaðvarpsveitum. ÍBV mun leika í 1. deildinni næsta sumar en gengi liðsins á þessari leiktíð var afleitt og er liðið í neðsta sæti deildarinnar með 10 stig þegar ein umferð er eftir af tímabilinu.

Gunnar Heiðar er uppalinn í Vestmannaeyjum hjá ÍBV en hann á að baki farsælan feril sem atvinnumaður með liðum á borð við Halmstad, Hannover, Esbjerg og Norrköping. Hann snéri heim úr atvinnumennsku árið 2015 og lauk ferlinum með ÍBV árið 2018.

„Þetta er fyrst og fremst spurning fyrir stjórnarmeðlimi knattspyrnudeildarinnar,“ sagði Gunnar Heiðar í samtali við mbl.is í dag þegar hann var spurður að því hvort hann yrði næsti þjálfari ÍBV. „Ef ÍBV kallar hins vegar eftir aðstoð minni þá mun ég að sjálfsögðu skoða það en það er ekkert til í þeim sögusögnum um að ég sé að fara taka við liðinu að svo stöddu.“

Gunnar Heiðar Þorvaldsson lék 24 A-landsleiki þar sem hann skoraði …
Gunnar Heiðar Þorvaldsson lék 24 A-landsleiki þar sem hann skoraði fimm mörk. mbl.is/Ómar Óskarsson

Heimild úr brekkunni á Þjóðhátið

Gunnar Heiðar er ekki allskostar sáttur við það hvernig nafn hans hefur verið dregið inn í umræðuna.

„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá veit ég satt best að segja ekki hvaðan þessar sögusagnir koma. Það hefur aldrei verið haft samband við mig af hálfu forráðamanna ÍBV og ég held í alvörunni að þessi umræða hafi sprottið upp eftir einhverjar fáránlegar umræður sem áttu sér stað í brekkunni á Þjóðhátið. Þaðan hefur aldrei komið áreiðanleg heimild.“

Þá er framherjinn fyrrverandi ósáttur með ákveðið metnaðarleysi í fréttamennsku á Íslandi í dag.

„Með fullri virðingu fyrir ykkur blaðamönnum þá er sé ég ekki mikinn metnað í því að pikka bara upp einhver ummæli í einhverjum hlaðvarpsþætti eða sem einhver skrifar á Twitter og ætla svo að halda því fram að það sé einhver frétt. Í mínu tilfelli þá var nafn mitt dregið inn í einhverja umræðu og sá eini sem hefur þurft að svara fyrir þetta er ég sjálfur. Það hefur verið leiðinlegt fyrir bæði mig og fjölskyldu mína að svara fyrir þetta á meðan þeir sem hentu þessu fram á sínum tíma komast í raun bara upp með að bulla og bulla án þess að þurfa svara eitthvað sérstaklega fyrir það. Þetta er ekki merkileg fréttamennska finnst mér og í raun bara óábyrgt,“ sagði Gunnar Heiðar í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert