Orri Steinn Óskarsson, fimmtán ára gamall leikmaður knattspyrnuliðs Gróttu, mun ganga til liðs við danska stórliðið FC Kaupmannahöfn næsta sumar en það er danski miðillinn BT sem greinir frá þessu. Fótbolti.net greindi fyrst frá þessum fréttum hér heima.
BT greinir frá því að Orri hafi nú þegar skrifað undir samning við danska félagið og mun hann fara út næsta vor. Orri hefur komið við sögu í 12 leikjum með Gróttu en liðið tryggði sér sæti í efstu deild um helgina þegar liðið vann 4:0-sigur gegn Haukum á Vivaldi-vellinum á Seltjarnarnesi í lokaumferð 1. deildarinnar.
Orri var á skotskónum í leiknum, skoraði fyrsta mark Gróttu, en hann er sonur Óskars Hrafns Þorvaldssonar, þjálfara Gróttu. BT greinir frá því að lið á borð við enska stórliðið Arsenal hafi haft áhuga á Orra sem ákvað að lokum að skrifa undir í Danmörku. Orri á að baki 17 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands þar sem hann hefur skorað fjögur mörk. Hann gerði fyrstu mörk sín fyrir meistaraflokk Gróttu aðeins 13 ára gamall í 2. deildinni sumarið 2018.