Hafrún Rakel á leið í Breiðablik

Hafrún Rakel Halldórsdóttir er á leið í Kópavoginn.
Hafrún Rakel Halldórsdóttir er á leið í Kópavoginn. mbl.is/Árni Sæberg

Hafrún Rakel Halldórsdóttir er á leið í Breiðablik en þetta staðfesti Júlíus Ármann Júlíusson, þjálfari kvennaliðs Aftureldingar í knattspyrnu, í samtali við mbl.is. Hafrún Rakel verður 17 ára gömul 1. október næstkomandi en hún lék 17 leiki með Aftureldingu í 1. deildinni í sumar þar sem hún skoraði fimm mörk.

Hafrún Rakel á að baki 17 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands þar sem hún hefur skorað þrjú mörk. Mörg lið í efstu deild höfðu mikinn áhuga á leikmanninum sem valdi að lokum að fara til Breiðabliks. Hún verður samningslaus um mánðamótin og getur þá skrifað undir í Kópavogi en Blikar hafa verið á eftir leikmanninum í allt sumar.

Afturelding hefur alið af sér öflugar knattspyrnukonur á undanförnum árum en síðasta haust fór Cecilía Rán Rúnarsdóttir til Fylkis. Cecilía var á dögunum valin í A-landsliðið í fyrsta sinn hún er fædd árið 2003. Þá gekk Eva Rut Ásþórsdóttir til liðs við HK/Víking síðasta haust og Hafrún er því þriðji leikmaðurinn sem frá Aftureldingu á innan við ári.

„Það voru mörg lið sem vildu fá Hafrúnu, nánast öll liðin í efstu deild,“ sagði Júlíus í samtali við mbl.is í dag. „Við höfum misst öfluga leikmenn að undanförnu en að sama skapi munum við halda áfram að búa til öflugar knattspyrnukonur í Mosfellsbænum,“ sagði Júlíus ennfremur í samtali við mbl.is í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert