Óhætt að segja að ég sé hættur

Hörður Árnason hefur lagt skóna á hilluna eftir farsælan meistaraflokksferil …
Hörður Árnason hefur lagt skóna á hilluna eftir farsælan meistaraflokksferil sem hófst árið 2007. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Þetta eru fyrst og fremst svekkjandi úrslit fyrir okkur,“ sagði Hörður Árnason, bakvörður HK, í samtali við mbl.is eftir 2:0-tap liðsins gegn Val í lokaumferð úrvaldeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Origo-vellinum á Hlíðarenda í dag.

„Mér fannst mikið jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik. Við fengum hættulegri færi til að byrja með en svo komust þeir yfir eftir mistök hjá okkur og þeir genga á lagið eftir það. Í síðari hálfleik leystist svo leikurinn í raun bara upp í algjöra vitleysu þar sem það var hart barist en kannski lítið um færi. Við ætluðum okkur að liggja til baka og sækja hratt á þá og mér fannst það ganga vel. Við gerðum einstaklingsmistök sem þeir refsa okkur fyrir og þar liggur munurinn á liðunum í dag.“

HK lýkur keppni í níunda sæti deildarinnar með 27 stig en liðinu var spáð falli úr deildinni í vor.

„Ef við hefðum unnið í dag hefðum við getað endað í fimmta eða sjötta sæti þannig að það er stutt á milli í þessu. Níunda sæti er svekkjandi niðurstaða en í heild er ég ánægður með spilamennsku liðsins í sumar og við sýndum það og sönnuðum að við eigum heima í þessari deild.“

Hörður á að baki 168 leiki í efstu deild með HK og Stjörnunni og setti á dögunum nýtt leikjamet hjá HK í efstu deild en hann staðfesti í samtali við mbl.is að leikurinn í dag hefði verið hans síðasti á ferlinum.

„Ég held að það sé óhætt hjá mér að segja það núna að ég sé hættur í fótbolta og skórnir fari nú upp á hillu,“ sagði Hörður í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka