Ólafur Jóhannesson, fyrrverandi þjálfari karlaliðs Vals í knattspyrnu, segist ekki hafa tekið neina ákvörðun um framhaldið en tilkynnt var eftir leik Vals og HK í lokaumferð Pepsi Max-deildarinnar á laugardaginn að samningur hans við félagið yrði ekki endurnýjaður.
Ólafur tók við þjálfun Valsliðsins í október 2014. Liðið varð bikarmeistari undir hans stjórn 2015 og 2016 og Íslandsmeistari 2017 og 2018. Valsmönnum gekk ekki vel á nýafstöðnu tímabili en Valur endaði í 6. sæti í Pepsi Max-deildinni með 29 stig, fékk 17 stigum færra en í fyrra. Heimir Guðjónsson er sagður á leiðinni til Vals til að fylla skarð Ólafs en Heimir hefur ákveðið að yfirgefa færeyska liðið HB eftir tímabilið.
„Ég ætla ekkert að gera hug minn upp fyrr en eftir 15. október. Það eru nokkur félög búin að hafa samband við mig en ég hef ekki tekið ákvörðun um það hvort ég ætli að halda áfram að þjálfa eða ekki. Ég ætla að fara yfir mín mál aðeins betur og bíða og sjá til hvað gerist þegar ég kem heim. Ég er bara að hugsa mín mál,“ sagði Ólafur í samtali við mbl.is en hann er staddur í fríi á Spáni.
Ólafur, sem er 62 ára gamall, er einn reyndasti og sigursælasti þjálfari landsins. Ólafur hefur verið í þjálfun meira og minna í tæp 40 ár. Hann hóf þjálfaraferil sinn hjá Einherja á Vopnafirði árið 1981 og hefur síðan þá þjálfað Skallagrím, FH, Þrótt Reykjavík, Selfoss, ÍR og Val og þá stýrði hann íslenska A-landsliðinu 2007-'11. FH varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari undir stjórn Ólafs og bikarmeistari einu sinni.