Heimir ráðinn þjálfari Vals

Heimir Guðjónsson snýr aftur í íslenska boltann.
Heimir Guðjónsson snýr aftur í íslenska boltann. mbl.is/Eggert

Heimir Guðjónsson hefur verið ráðinn nýr þjálfari karlaliðs Vals í fótbolta. Hann tekur við starfinu af Ólafi Jóhannessyni sem stýrt hefur Val síðustu fimm ár.

Segja má að Heimir endurtaki þar með leikinn frá haustinu 2007 þegar hann tók við af Ólafi en þá sem aðalþjálfari FH, eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari. Samningur Heimis við Val er til næstu fjögurra ára en Valsliðið hafnaði í 6. sæti úrvalsdeildarinnar í ár eftir að hafa orðið Íslandsmeistari síðustu tvö ár á undan og bikarmeistari árin 2015 og 2016.

Heimir, sem er fimmtugur, hefur þjálfað HB í Færeyjum síðustu tvö ár og gerði liðið að færeyskum meistara í fyrra og bikarmeistara í ár. Áður hafði hann stýrt FH til fimm Íslandsmeistaratitla sem aðalþjálfari og eins bikarmeistaratitils, en Heimir var látinn fara frá FH haustið 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert