„Þetta var klaufalegt af minni hálfu. Ég er búinn að sjá atvikið og þar kemur í ljós að ég fór í höndina á honum. Ég bauð upp á þetta og þetta var leiðinlegt. Stig í þessum leik hefði verið helvíti gott fyrir okkur,“ sagð Ari Freyr Skúlason við mbl.is eftir tapið gegn Frökkum á Laugardalsvellinum í kvöld.
Oliver Giroud skoraði eina mark Frakka úr vítaspyrnu sem dæmd var á Ara fyrir brot á Antoine Griezmann.
„Griezmann sá að hann gat ekki sparkað í boltann. Ég var nokkuð viss um að hann ætlaði að fara að skjóta á markið og ég ætlaði að reyna að blokka skotið. Það var súrt að fá ekkert út úr þessum leik. Mér fannst liðsheildin hjá okkur frábær, andinn var góður í hópnum og ég hafði góða tilfinningu fyrir leikinn. Ég held að við getum verið heilt yfir stoltir af frammistöðunni. Það er ekki fyrr en þeir skora sem þeir ná að skapa sér einhver færi en fram að því voru þeir ekki að fá nein færi,“ sagði Ari Freyr.
„Það er ennþá möguleiki til staðar fyrir okkur. Við vonum bara að Frakkar vinni Tyrkina á mánudaginn og ef það gerist og við vinnum rest þá förum við áfram. Við hefðum mátt gera betur í að halda í boltann en það má ekki gleyma því að þetta eru heimsmeistararnir sem hafa marga frábæra einstaklinga í sínu liði. Það er súrt að vera maðurinn sem fékk vítið á sig en ef við höldum áfram með þetta viðhorf sem var til staðar í kvöld þá efast ég ekki um það að við förum á EM,“ sagði Ari Freyr.