Gylfi Þór Sigurðsson, fyrirliði Íslands, sagði íslensku leikmennina geta sjálfum sér um kennt að Frakkar skyldu skora á Laugardalsvellinum í kvöld. Hann sagði íslenska liðið samt sem áður hafa varist vel gegn erfiðum andstæðingi.
„Þetta er gríðarlega svekkjandi. Mér fannst við verjast bara mjög vel í fyrri hálfleik. Auðvitað vorum við lítið með boltann en ég held að þeir hafi ekki skapað sér mjög mikið, sérstaklega í fyrri hálfleik. Eftir að þeir skoruðu úr vítinu þá opnaðist auðvitað meira hjá okkur.“
Gylfi var ekki ánægður með frammistöðu ítalska dómarans en fannst Frakkar fá ódýrar aukaspyrnur. „Mér fannst hann sýna þeim mjög mikla virðingu. Ég veit ekki hvort ég hafi rétt fyrir mér en mér fannst alla vega mörg smávægileg brot vera dæmd á okkur en síður á þá. En svona er þetta bara. Það var klaufalegt hjá okkur að fá á okkur þetta víti og það var bara okkur að kenna.“
Gylfi viðurkenndi að erfitt væri að spila leik sem þennan þar sem andstæðingarnir eru mest megnis með boltann.
„Á heildina litið var þetta nokkuð góð frammistaða í vörninni en við hefðum getað verið töluvert betri í sókninni. Við þurfum að verjast mikið og verjast aftarlega. Þegar við fengum boltann þá var ekki endilega auðvelt að spila út úr því. Stundum var það bara rétt fyrir utan eigin teig.“
Jóhann B. Guðmundsson þurfti að haltra af velli eftir aðeins 14 mínútur. Var kjaftshögg að sjá á eftir honum svo snemma leiks?
„Já já. Auðvitað er slæmt að missa mikilvægan mann eins og Jóa. Við misstum bæði Jóa og Rúnar út af en Rúnar fór reyndar út af í seinni hálfleik. Það er mjög slæmt að missa menn út af því það riðlar skipulaginu. Jón Daði kom inn á fyrir Jóa og fór á kantinn sem er ekki hans staða. Mér fannst hann gera það bara nokkuð vel enda ekki auðvelt fyrir sóknarmann að vera á kantinum gegn heimsmeisturunum,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson að leiknum loknum í kvöld.