Jón Daði Böðvarsson reiknaði með að koma inná í leiknum gegn Frökkum í kvöld en hann bjóst ekki við því að koma inná eftir stundarfjórðung.
Jón Daði leysti Jóhann Berg af hólmi þegar hann tognaði aftan í læri.
„Ég bjóst ekki alveg við því að koma inná svona fljótt. Það var smá sjokk en ég vann mig smátt og smátt inn í leikinn og það var gaman að rifja upp gömlu kantstöðuna upp á nýtt,“ sagði Jón Daði, sem fór í stöðu vinstri kantmanns þegar hann kom inná fyrir Jóhann Berg.
„Það vantaði ekkert upp á það hjá okkur að gefa allt í þennan leik. Við vorum agaðir og skipulagðir en við náðum ekki að sækja nægilega vel á þá og vorum ekki nógu beittir fram á við. Frakkarnir eru eins og gefur að skilja með heimsklassalið en mér fannst við standa vel í þeim. Það var köld vatngusa að fá þetta víti á okkur. Frá mínum bæjardyrum fannst mér þetta ekki vera víti, alla vega var þetta mjög ódýr vítaspyrna. Það var því ansi svekkjandi að tapa leiknum á þessu víti,“ sagði Jón Daði.
„Það er ekki óskastaða að þurfa að treysta á önnur lið en þýðir ekkert annað fyrir okkur að einbeita okkur að þeim leikjum sem við eigum eftir og nú er öll einbeitingin á leiknum við Andorra á mánudaginn. Við setjum þá kröfu á okkur að vinna þann leik. Þetta er leikur sem Ísland á að vinna.“