„Leikmaðurinn Jóhann Berg er ekkert smá mikilvægur fyrir íslenska landsliðið og hefur sýnt það,“ sagði Alfreð Finnbogason um herbergisfélaga sinn úr íslenska landsliðinu en Jóhann Berg Guðmundsson meiddist gegn Frökkum á föstudag og er úr leik næstu vikurnar.
Jóhann verður því ekki með gegn Andorra í undankeppni EM í fótbolta annað kvöld og hugsanlega ekki heldur með Tyrklandi og Moldóvu í næsta mánuði. Alvarleiki meiðsla hans á eftir að koma betur í ljós, að sögn Erik Hamrén landsliðsþjálfara.
„Án þess að vanvirða aðra í hópnum þá höfum við ekki marga leikmenn eins og Jóhann, sem geta gert hlutina með boltann, komið frá kantinum og alltaf dregið 2-3 leikmenn að sér,“ sagði Alfreð, spurður um félaga sinn, en benti jafnframt á mikilvægi Jóhanns utan vallar:
„Persónan Jóhann Berg er líka gríðarlega mikilvæg í þessum hópi. Á öllum sviðum er þetta gríðarlegur missir. Þetta er líka mikill missir fyrir mig persónulega, núna er ég einn í herbergi, þannig að á mörgum sviðum svíður þetta fyrir liðið og mig. Vonandi fær hann smátíma til að koma sér almennilega á skrið. Hann er örugglega ekki ánægður með hvernig þetta er búið að vera síðustu ár, mikið meiddur í kringum landsleiki, og það er gríðarlegur missir fyrir okkur að öllu leyti,“ sagði Alfreð.