Spennandi að fara suður með sjó

Sigurbjörn Hreiðarsson er nýr þjálfari Grindavíkur.
Sigurbjörn Hreiðarsson er nýr þjálfari Grindavíkur. Ljósmynd/Grindavík

„Ég er mjög spenntur að taka við þessu liði á þessum tímapunkti,“ sagði Sigurbjörn Hreiðarsson, nýráðinn þjálfari knattspyrnuliðs Grindavíkur, í samtali við mbl.is í dag. Sigurbjörn skrifaði undir tveggja ára samning við félagið en Ólafur Brynjólfsson, fyrrverandi aðstoðarþjálfari kvennaliðs Stjörnunnar, verður aðstoðarmaður hans. 

Sigurbjörn hefur undanfarin fimm tímabil verið aðstoðarþjálfari Ólafs Jóhannessonar hjá Val en Ólafur lét af störfum sem þjálfari Vals eftir tímabilið. Þá var Sigurbjörn aðalþjálfari Hauka í 1. deildinni sumarið 2014. Heimir Guðjónsson var ráðinn þjálfari Vals á dögunum og hafði hann áhuga á því að halda Sigurbirni sem á að baki 304 leiki fyrir Val í bæði deild og bikar.

„Það hafa einhverjar viðræður verið í gangi á undanförnum dögum en ekkert fast í hendi þangað til nú. Ég hugleiddi það alveg að vera áfram á Hlíðarenda en þegar Grindavík hafði samband þá fannst mér það mjög spennandi kostur.“

Sigurbjörn er spenntur á að hefja störf í Grindavík en óvissa er um framtíð margra leikmanna sem léku með liðinu í sumar.

„Umgjörðin í Grindavík er frábær og þetta er klúbbur sem á sér ríka sögu í efstu deild. Það er gríðarlega spennandi að fara suður með sjó og fá tækifæri til þess að þjálfa liðið á þessum tímapunkti. Mannskapurinn er góður og leikmananhópurinn spennandi. Við munum núna fara í smá naflaskoðun með leikmannahópinn enda einhverjir leikmenn að renna út á samning.“

Grindavík féll úr efstu deild síðasta haust en Sigurbjörn segir að markmiðið sé að sjálfsögðu að fara beint upp aftur.

„Ég set þá pressu á mig sjálfur að fara inn í alla leiki til þess að vinna þá og þar af leiðandi viljum við fara beint upp aftur,“ sagði Sigurbjörn í samtali við mbl.is.

Sigurbjörn Hreiðarsson hefur verið aðstoðarþjálfari Ólafs Jóhannessonar hjá Val undanfarin …
Sigurbjörn Hreiðarsson hefur verið aðstoðarþjálfari Ólafs Jóhannessonar hjá Val undanfarin fimm tímabil. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka