Edda þjálfar hjá Þrótturum

Edda Garðarsdóttir.
Edda Garðarsdóttir. mbl.is/Golli

Edda Garðarsdóttir, fyrrrverandi landsliðskona í knattspyrnu, verður aðstoðarþjálfari kvennaliðs Þróttar í Reykjavík á komandi keppnistímabili en Þróttarliðið vann sannfærandi sigur í 1. deildinni í ár og leikur í úrvalsdeildinni á næsta ári.

Edda, sem er í hópi leikjahæstu landsliðskvenna Íslands með 103 landsleiki og var lengi í atvinnumennsku í Svíþjóð, verður þar Nik Anthony Chamberlain til aðstoðar en hann hefur stýrt Þróttarliðinu frá 1. júlí 2016.

Edda lék með meistaraflokki KR frá þrettán ára aldri, 1992, og til 2008 en spilaði þó tvö ár í millitíðinni með Breiðabliki. Hún lék með Örebro í Svíþjóð 2009-2012, með Chelsea á Englandi fyrri hluta árs 2013 og með Val seinni hlutann en lagði síðan skóna á hilluna. Hún var í íslenska landsliðinu sem lék í fyrsta sinn í lokakeppni EM árið 2009, í Finnlandi.

Edda þjálfaði lið KR í úrvalsdeildinni árin 2016 og 2017 en hefur síðan verið í fríi frá þjálfun undanfarin tvö ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert