Knattspyrnumaðurinn Baldur Sigurðsson hefur átt í viðræðum við KA um að ganga til liðs við félagið samkvæmt heimildum mbl.is. Baldur hefur leikið með Stjörnunni undanfarin fjögur ár en í gær tilkynnti félagið að hann væri á förum, þrátt fyrir að eiga ár eftir af samningi sínum.
Baldur á að baki 251 leik í efstu deild þar sem hann hefur skorað 55 mörk. Hann hefur leikið með Völsungi, Keflavík, KR og nú síðast Stjörnunni hérlendis. Þá lék hann einnig með Bryne í Noregi og SönderjyskE í Danmörku sem atvinnumaður.
Baldur á að baki 3 A-landsleiki fyrir Ísland en hann er fæddur árið 1985 og verður því 35 ára gamall á næsta ári. KA endaði í fimmta sæti deildarinnar síðasta sumar með 31 stig en liðið var lengi vel í fallbaráttu.