Andrea Rán Hauksdóttir, leikmaður Breiðabliks, var besti miðjumaður sinnar deildar í bandaríska háskólafótboltanum í ár, annað árið í röð.
Andrea leikur með liði Háskóla Suður-Flórída, USF, en liðið tilheyrir American Athletic-deildinni sem er ein af mörgum deildum bandaríska háskólaboltans. Liðsfélagi hennar, Evelyne Viens, var valin sem önnur af bestu sóknarmönnum deildarinnar.
Andrea var í byrjunarliði USF í öllum 16 leikjum liðsins á tímabilinu og lék 1.355 mínútur, næstflestar allra í liðinu. Hún skoraði fjögur mörk og gaf sjö stoðsendingar.
USF varð í 2. sæti sinnar deildar og leikur í undanúrslitum á morgun við Háskóla Mið-Flórída, UCF.
Andrea, sem á að baki 10 A-landsleiki, lék ellefu leiki fyrir Blika í Pepsi Max-deildinni í sumar.