Íslenska A-landslið karla í fótbolta mætir Moldóvu í annað skiptið í sögunni á Zimbru-vellinum í Kisínev, höfuðborg landsins, klukkan 19:45 í kvöld. Er um síðasta leik þjóðanna í undankeppni EM 2020 að ræða.
Lítið er undir í kvöld þar sem Ísland á ekki möguleika á að fara beint í lokakeppnina og Moldóva er í neðsta sæti með aðeins þrjú stig. Eini sigur Moldóvu til þessa var á heimavelli gegn Andorra í júní, 1:0. Þá skoraði Igor Armas sigurmarkið, en hann leikur með Voluntari í Rúmeníu.
Síðan þá hefur liðið aðeins skorað eitt mark í sex leikjum. Kom það gegn Frökkum á Stade de France á fimmtudag. Vadim Rata, leikmaður Chindia Targoviste í Rúmeníu, kom liðinu gríðarlega óvænt yfir snemma leiks. Frakkar sneru hins vegar taflinu við og unnu nauman 2:1-sigur.
Ísland og Moldóva mættust 7. september á Laugardalsvelli og vann Ísland sannfærandi 3:0-sigur og fór í toppsæti riðilsins um stundasakir. Kolbeinn Sigþórsson skoraði fyrsta markið á 31. mínútu og Birkir Bjarnason og Jón Daði Böðvarsson bættu við mörkum í seinni hálfleik. Jón Daði sagði í viðtali við mbl.is eftir leikinn að markið sitt hefði verið ljótt.
„Þetta var ljótt mark og það er týpískt þegar maður gengur í gegnum þurrk að fá eitt svona mark sem framherji. Ég er heiðarlegur maður og ég tek þetta allan daginn,“ sagði Jón Daði, en markið virtist vera sjálfsmark við fyrstu sýn, en boltinn strauk framherjann á leiðinni inn.
Atla Eðvaldssonar var minnst fyrir leik. Upphaflega átti að minnast hans með mínútu þögn, en hún breyttist í mínútu klapp og úr varð falleg stund.
Það verður forvitnilegt að sjá hvers konar liði landsliðsþjálfarinn Erik Hamrén stillir upp. Leikmenn eins og Mikael Anderson, Aron Elís Þrándarson og Samúel Kári Friðjónsson gætu fengið tækifærið í leik sem skiptir litlu máli.
Jón Guðni Fjóluson, Sverrir Ingi Ingason, Hjörtur Hermannsson og Hólmar Örn Eyjólfsson vonast svo eftir tækifæri í vörninni. Þá hefur Ögmundur Kristjánsson spilað vel í markinu hjá Larissa í Grikkland og vonast eflaust eftir öðru tækifæri með landsliðinu. Þá er Viðar Örn Kjartansson mættir aftur, en hann missti af leiknum við Tyrkland á fimmtudag vegna veikinda.