„Ef það væri almennilegur grasvöllur hérna með hitakerfi værum við ekkert að spá í þetta. Fólk talar alltaf um að veðurfar á Íslandi sé svo slæmt og þess vegna sé ekki hægt að spila hérna yfir veturinn, en það er bara ekki rétt. Auðvitað getur skollið á óveður en hvað grasfræðin varðar væri alveg hægt að spila,“ segir Bjarni Þór Hannesson grasvallatæknifræðingur.
Nú liggur fyrir að Ísland spili einn og hugsanlega tvo leiki á Laugardalsvelli í lok mars, í umspili um sæti á EM karla í fótbolta. Ýmsir efast um að hægt verði að spila á Íslandi og er það ekki að ástæðulausu, enda hefur það ekki verið gert áður á þessum árstíma. Of lengi hefur verið beðið með nauðsynlegar úrbætur í vallarmálum í Laugardalnum og því er vel hugsanlegt að Íslendingar bjóði Rúmena eða Ungverja velkomna til Kaupmannahafnar í stað Reykjavíkur þegar líður að undanúrslitaleik umspilsins 26. mars.
„Það verður aldrei kominn vöxtur í völlinn á þessum tíma en það eina sem við þurfum er að hann verði ekki frosinn,“ segir Bjarni, en vegna þess hve illa Laugardalsvöllur er uppbyggður er enn erfiðara en ella að koma í veg fyrir að hann verði frosinn. Hins vegar hjálpar til að völlurinn er upp á sitt besta nú þegar vetur er að skella á.
Viðtalið við Bjarna í heild sinni er að finna í Morgunblaðinu í dag