Ísland hefur ekki sótt gull í greipar Rúmena þegar þjóðirnar hafa mæst í A-landsleikjum karla í knattspyrnu til þessa en þær mætast í undanúrslitum umspilsins fyrir EM 2020 á Laugardalsvellinum 26. mars.
Reyndar hafa Ísland og Rúmenía aðeins mæst tvisvar og það var árin 1996 og 1997, á mesta blómaskeiði rúmenska landsliðsins, en liðin voru þá saman í riðli í undankeppni HM 1998.
Rúmenska liðið var firnasterkt á þessum árum en það komst í átta liða úrslit HM árið 1994 og í átta liða úrslit EM árið 2000.
Liðin mættust fyrst á Laugardalsvellinum 9. október 1996. Rúmenar, með snillinginn Gheorghe Hagi í broddi fylkingar, unnu leikinn 4:0 þar sem Dinu Moldovan, Hagi, Gheorghe Popescu og Dan Petrescu skoruðu mörkin.
Þjóðirnar mættust aftur í Búkarest ári síðar, 10. september 1997, og þar urðu sömu lokatölur, 4:0 fyrir Rúmena. Hagi skoraði þá tvö mörk og Petrescu eitt og þá skoraði Constantin Galca, núverandi þjálfari Kjartans Henry Finnbogasonar hjá Vejle í Danmörku, eitt markanna.
Rúmenar unnu þennan undanriðil með yfirburðum, fengu 28 stig af 30 mögulegum og flugu auðveldlega inn á HM 1998 í Frakklandi. Írar fengu 18 stig, Makedóníumenn 13, Íslendingar 9 en Liechtensteinar ekkert stig.
Guðni Bergsson og Ólafur Þórðarson settu í sameiningu landsleikjamet í fyrri leiknum við Rúmena. Þeir spiluðu þá báðir sinn 71. landsleik og slógu met Atla Eðvaldssonar sem var 70 leikir.