Íslenska liðið réð ekkert við Rúmena

Guðni Bergsson, núverandi formaður KSÍ, og Ólafur Þórðarson náðu landsleikjametinu …
Guðni Bergsson, núverandi formaður KSÍ, og Ólafur Þórðarson náðu landsleikjametinu af Atla Eðvaldssyni þegar Ísland tók á móti Rúmeníu árið 1996. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ísland hefur ekki sótt gull í greipar Rúmena þegar þjóðirnar hafa mæst í A-landsleikjum karla í knattspyrnu til þessa en þær mætast í undanúrslitum umspilsins fyrir EM 2020 á Laugardalsvellinum 26. mars.

Reyndar hafa Ísland og Rúmenía aðeins mæst tvisvar og það var árin 1996 og 1997, á mesta blómaskeiði rúmenska landsliðsins, en liðin voru þá saman í riðli í undankeppni HM 1998.

Rúmenska liðið var firnasterkt á þessum árum en það komst í átta liða úrslit HM árið 1994 og í átta liða úrslit EM árið 2000.

Liðin mættust fyrst á Laugardalsvellinum 9. október 1996. Rúmenar, með snillinginn Gheorghe Hagi í broddi fylkingar, unnu leikinn 4:0 þar sem Dinu Moldovan, Hagi, Gheorghe Popescu og Dan Petrescu skoruðu mörkin.

Frásagnir af leikjunum tveimur gegn Rúmenum árin 1996 og 1997.
Frásagnir af leikjunum tveimur gegn Rúmenum árin 1996 og 1997.


Þjóðirnar mættust aftur í Búkarest ári síðar, 10. september 1997, og þar urðu sömu lokatölur, 4:0 fyrir Rúmena. Hagi skoraði þá tvö mörk og Petrescu eitt og þá skoraði Constantin Galca, núverandi þjálfari Kjartans Henry Finnbogasonar hjá Vejle í Danmörku, eitt markanna.

Rúmenar unnu þennan undanriðil með yfirburðum, fengu 28 stig af 30 mögulegum og flugu auðveldlega inn á HM 1998 í Frakklandi. Írar fengu 18 stig, Makedóníumenn 13, Íslendingar 9 en Liechtensteinar ekkert stig.

Guðni Bergsson og Ólafur Þórðarson settu í sameiningu landsleikjamet í fyrri leiknum við Rúmena. Þeir spiluðu þá báðir sinn 71. landsleik og slógu met Atla Eðvaldssonar sem var 70 leikir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert