Kópavogsfélögin HK og Breiðablik ætla að minnast Bjarka Más Sigvaldasonar og styrkja samtökin Ljónshjarta þegar þau mætast í fotbolti.net-mótinu í meistaraflokki karla í fótbolta í Kórnum á morgun.
Félögin hafa ákveðið að leikurinn muni bera nafnið Bjarkaleikur og hafa í samráði við Ástrós Rut Sigurðardóttur, ekkju Bjarka, sett sér að spila sérstakan leik árlega þar sem selt verði inn og ágóðinn renni óskertur í gott málefni sem ákveðið er hverju sinni. Ljónshjarta er samtök fyrir ungt fólk sem misst hefur maka, og börn þess.
Bjarki Már lést í júní 2019 eftir sjö ára baráttu við krabbamein en hann var 32 ára gamall og lék með HK til ársins 2012 þegar hann veiktist fyrst.
Leikurinn hefst klukkan 11.15 í Kórnum á morgun en þetta er fyrsti mótsleikur ársins hjá liðunum. Aðgangseyririnn er í formi frjálsra framlaga við innganginn.