Berglind Björg Þorvaldsdóttir, knattspyrnukona í Breiðablik, er eftirsótt af stórum liðum í Evrópu en þetta staðfesti Eysteinn Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks, í samtali við fótbolta.net í dag.
Berglind átti frábært tímabil með Breiðabliki á síðustu leiktíð þar sem hún varð markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar með 16 mörk í sautján leikjum. Þá skoraði hún 10 mörk í sjö leikjum með Breiðabliki í Meistaradeild Evrópu.
„Við viljum helst ekki missa hana en það er mikill áhugi frá stórum liðum í Evrópu. Við höfum fengið fyrirspurnir í hana og erum að skoða þessi mál þessa dagana," sagði Eysteinn Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks, við fótbolta.net í dag.
Þá greindi Eysteinn frá því í samtali við fótbolta.net að það kæmi vel til greina að lána leikmanninn þangað til keppni í úrvalsdeild kvenna hefst í apríl en Berglind var á láni hjá PSV í Hollandi á síðustu leiktíð, þangað til tímabilið hófst á Íslandi.