Freyr Alexandersson, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, sagði við mbl.is að hann væri ánægður með frammistöðu liðsins gegn sterku liði Kanadamanna en Ísland vann vináttulandsleik þjóðanna, 1:0, í Irving í Kaliforníu í nótt.
„Fyrri hálfleikurinn var mjög vel spilaður. Varnarleikurinn var mjög góður, sérstaklega ef við tökum með í reikninginn að við náðum aðeins tveimur æfingum saman fyrir leik. Kanadamenn sköpuðu fá færi í fyrri hálfleik en við fengum nokkur góð færi og hefðu þurft að nýta þau betur," sagði Freyr en Hólmar Örn Eyjólfsson skoraði markið eftir hornspyrnu Davíðs Kristjáns Ólafssonar á 21. mínútu.
Hann sagði að seinni hálfleikurinn hefði verið erfiður. „Kanadamenn voru mikið með boltann og settu talsverða pressu á okkur, án þess þó að skapa sér mörg færi. Við erum mjög ánægðir með þá ungu og óreyndu stráka sem kláruðu leikinn. Það er mikilvægur lærdómur að klóra sig í gegnum svona pressu til að ná fram sigri og það gerðu þeir vel,“ sagði Freyr.
Fimm nýliðar léku sinn fyrsta A-landsleik í nótt og Freyr sagði að í heildina hefði leikurinn verið mjög jákvætt og gott verkefni. „Já, það er gaman að fimm nýliðar skuli hafa fengið tækifæri og það er þeim gríðarlega mikilvægt að hafa í kringum sig reynslumikla leikmenn sem nálgast verkefnið af mikilli fagmennsku, enda voru menn einbeittir á að nota leikinn sem góðan undirbúning fyrir umspilið í mars," sagði Freyr Alexandersson við mbl.is.
Seinni leikurinn í ferðinni er gegn El Salvador á sunnudagskvöldið og hefst á miðnætti að íslenskum tíma, eins og leikurinn í nótt, en hann er leikinn í borginni Carson í Kaliforníu.