Ég er stoltur Íslendingur

Natasha Anasi (fyrir miðju) í leik með Keflavík síðasta sumar.
Natasha Anasi (fyrir miðju) í leik með Keflavík síðasta sumar. Ljósmynd/Haraldur Jónasson/Hari

„Ég er virkilega spennt og ánægð með tækifærið á að fá að spila með bestu leikmönnum Íslands,“ sagði Natasha Anasi, sem í dag var valin í íslenska landsliðið í fótbolta í fyrsta skipti, er mbl.is sló á þráðinn til hennar.

Natasha er fædd í Texas í Bandaríkjunum, en hún hefur leikið á Íslandi frá árinu 2014, fyrst með ÍBV og síðan Keflavík. Hún fékk íslenskan ríkisborgararétt á síðasta ári, en hún átti ekki endilega von á að vera valin í landsliðið. 

„Ég get ekki sagt að ég hafi búist við þessu, alls ekki, en ég vissi að þetta væri möguleiki og ég er staðráðin í að sýna að ég átti skilið að fá tækifæri. Ég verð að sýna það á æfingum að ég er sé nógu góð.“

Missti af símtalinu í morgun

„Ég var mjög spennt um leið og ég heyrði þetta. Ég missti af símtalinu í morgun, en svo fékk ég hamingjuóskir á Facebook og ég vissi ekki hvað var í gangi. Svo sá ég póstinn og varð spennt. Ég er mjög stoltur Íslendingur,“ sagði Natasha. Hún á íslenskan eiginmann og tæplega þriggja ára dóttur sem fæddist hér á landi. Hún kann afar vel við lífið á Íslandi. 

Natasha Anasi var valin í landsliðið í fyrsta skipti í …
Natasha Anasi var valin í landsliðið í fyrsta skipti í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Landsliðið var ekki það mikilvægasta hjá mér þegar ég fékk ríkisborgararéttinn. Ég vildi verða Íslendingur þar sem fjölskyldan mín er íslensk og ég taldi þetta vera það besta fyrir mig í íslensku samfélagi. Ég er heppin að samfélagið hérna hefur alltaf komið fram við mig eins og Íslending. Ég vissi að ég gæti fengið tækifæri með landsliðinu, en það var ekki í forgangi.“

Natasha féll úr efstu deild með Keflavík á síðasta ári og gerði í kjölfarið nýjan samning við félagið. Hún sér ekki endilega fram á að þurfa að yfirgefa Keflavík og spila í efstu deild, til að halda sæti sínu í landsliðinu. 

„Það er eitthvað sem ég þarf að hafa í huga og ég mun ræða það við landsliðsþjálfarana. Ég vona að það verði ekki mikil pressa því ég elska félagið og fólkið. Þau gera allt fyrir mig. Við bíðum og sjáum hvað gerist, en ég held ég muni ekki tapa á því að spila með Keflavík í sumar, þar er allt til alls,“ sagði nýjasta landsliðskona Íslands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert