Breiðablik vann afar sannfærandi 7:1-sigur á ÍA er liðin mættust í Lengjubikar karla í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld. Staðan í hálfleik var 3:0 og Blikar bættu við fjórum mörkum í seinni hálfleik.
Gísli Eyjólfsson skoraði fyrsta mark Breiðabliks á 37. mínútu og Alexander Helgi Sigurðarson og Thomas Mikkelsen bættu við mörkum fyrir hlé.
Tryggvi Hrafn Haraldsson lagaði stöðuna fyrir ÍA á 59. mínútu, en Breiðablik svaraði með tveimur mörkum frá Viktori Karli Einarssyni og einu frá Davíð Ingvarssyni og Thomas Mikkelsen.
Í sama riðli vann Leiknir Reykjavík 2:1-sigur á Aftureldingu í Egilshöll. Bjarki Aðalsteinsson kom Leikni yfir á 15. mínútu, en Jason Daði Svanþórsson jafnaði á 81. mínútu. Leiknir átti hins vegar lokaorðið því Shkelzen Veseli skoraði sigurmarkið á 87. mínútu, en hann er 16 ára gamall.
Breiðablik er með fullt hús stiga eftir þrjá leiki í 1. riðli en ÍA er með þrjú stig. Leiknir er einnig með þrjú stig, en Afturelding aðeins eitt.
Í 2. riðli hafði Víkingur Reykjavík betur gegn Fylki á Würth-vellinum í Árbæ, 2:0. Bæði mörkin komu í fyrri hálfleik. Víkingur er í toppsæti riðilsins með fullt hús og Fylkir í öðru með fjögur stig. Fréttin verður uppfærð með markaskorurum Víkings innan skamms.