„Það eru ærin verkefni fram undan og menn þurfa að ná utan um þetta,“ sagði Haraldur Haraldsson, formaður ÍTF, meðlimur í stjórn KSÍ og framkvæmdastjóri Víkings Reykjavíkur, í samtali við mbl.is í kvöld.
Haraldur og aðrir í stjórn KSÍ munu funda á morgun og ræða um næstu skref varðandi Íslandsmótið. „Við vitum lítið hvað gerist á morgun og hvað gerist hinn og hvað verður um mótið. Við ætlum að setjast niður og tækla þetta í sameiningu,“ sagði Haraldur sem á ekki von á öðru en mótinu verði frestað í einhvern tíma.
„Það liggur fyrir tillaga fyrir fundinum sem er búið að samþykkja. Það snýst um endurskipulagningu á mótinu. Ef það næst í gegn verður það væntanlega tilkynnt á morgun hvað við gerum miðað við þær forsendur sem liggja fyrir í dag. Það verða kannski ekki sömu forsendur í næstu viku, við vitum það ekki,“ sagði Haraldur sem segir ekki mikla frestun verða á mótinu eins og staðan er akkúrat núna.
„Það liggur fyrir seinkun á mótinu sem verður ekkert stórkostleg. Hún miðar við að samkomubannið sem er í gildi núna verði ekki framlengt. Við getum unnið eftir þessu nýja plani ef samgöngubannið hættir 12. apríl. Við erum hætt að horfa á 21. apríl fyrir 1. umferðina.
Það er of lítill tími fyrir félögin, sérstaklega í því ástandi sem við erum í núna. Menn geta ekki æft saman og eru komnir í einangrun hér og þar í liðunum. Það eru bara níu dagar frá 12.-21. apríl og það er of lítill tími,“ sagði hann.
„Allur afreksbolti á Íslandi er í sömu sporum. Vonandi eigum við allt mótið fram undan, en nú er búið að blása af í körfunni og ætli handboltinn fari ekki sömu leið,“ bætti Haraldur við.