Breiðablik var ekki eitt þeirra félaga sem hélt úti skipulögðum æfingum, þrátt fyrir skipun heilbrigðisyfirvalda um að allt skipulagt íþróttastarf yrði lagt niður á meðan barist er við útbreiðslu kórónuveirunnar. Þetta staðfesti Eysteinn Lárusson, framkvæmdastjóri félagsins, við Fótbolta.net í dag.
Orðrómar hafa verið á kreiki að Breiðablik hafi æft í nokkrum hópum og að markvarðaræfing yngri iðkenda hafi farið fram. Eysteinn segir ekkert til í þeim efnum.
„Engar skipulagðar æfingar eru á vegum deilda Breiðabliks og liggur allt starf niðri. Hins vegar eru iðkendur í deildum hvattir til að sinna sínum heimaæfingum og einstaklingsprógrammi sem þjálfarar hafa útbúið enda mikilvægt að halda áfram að stunda holla og góða hreyfingu eins og aðilar hafa hvatt til,“ sagði Eysteinn við Fótbolta.net.