Gamla ljósmyndin: Ökklabrot Birkis

mbl.is/Friðþjófur Helgason

Íþrótta­deild mbl.is og Morg­un­blaðsins held­ur áfram að gramsa eft­ir mynd­um í mynda­safni Morg­un­blaðsins og mbl.is. 

Meðfylgjandi mynd var tekin af hinum kunna ljósmyndara, Friðþjófi Helgasyni, og birtist í Morgunblaðinu 6. júl 1984. Ef til vill er rétt að vara viðkvæma við myndinni. 

Atvikið átti sér stað í leik á milli Vals og KA í bikarkeppni KSÍ. Ungur markvörður KA, Birkir Kristinsson, varð fyrir skelfilegum meiðslum. Ökklabrotnaði illa þannig að fóturinn tók á sig nýja og óhuggalega mynd. 

Valsarinn Grímur Sæmundsen brá sér í hlutverk læknis á Hlíðarenda þetta fimmtudagskvöld 5. júlí árið 1984 þegar Birkir brotnaði. Fóturinn snéri öfugt á Birki sem liggur á bakinu á grasinu. KA-mennirnir Steingrímur Birgisson og Njáll Eiðsson aðstoða Grím og Guðmundur Þorbjörnsson úr Val kannaði einnig ástand markvarðarins. 

Víðir Sigurðsson, fréttastjóri íþróttafrétta á Morgunblaðinu og mbl.is, var á staðnum og rifjaði atvikið upp í Bakverði á íþróttasíðum Morgunblaðsins í nóvember 2019. Við skulum grípa niður í hans frásögn: 

„Þegar portúgalski knattspyrnumaðurinn André Gomes í liði Everton varð fyrir slæmum meiðslum í leik liðsins gegn Tottenham um síðustu helgi rifjaðist upp atvik sem átti sér stað á gamla Valsvellinum á Hlíðarenda fyrir 35 árum.

Áhorfendur á Goodison Park hryllti við því sem þeir sáu því um slæm ökklameiðsli var að ræða og fóturinn sneri víst ekki alveg rétt í kjölfarið. Passað var upp á að sýna þetta ekki frekar í sjónvarpi til að ofbjóða ekki áhorfendum. Þeim sem horfði á leikinn með mér til lítillar skemmtunar!

En þeir sem vilja sjá fót snúa einkennilega geta farið inn á timarit.is og flett upp í Morgunblaðinu frá 6. júlí 1984. Kvöldið áður lék 19 ára gamall nýliði í marki KA gegn Val í bikarleik. Snemma leiks varð hann fyrir slæmum ökklameiðslum.

Á myndum í blaðinu má glöggt sjá hvernig fóturinn er langt frá því að snúa eðlilega. Þar sést líka læknirinn, vinstri bakvörðurinn og núverandi forstjóri Bláa lónsins, Grímur Sæmundsen, standa yfir sárþjáðum markverði KA.

Ég var á Hlíðarenda þetta kvöld og gleymi aldrei svakalegum spretti Gríms yfir allan völlinn og hann varð fyrstur til að veita markverðinum aðstoð. Miðað við það sem gerst hefur í seinni tíð hefði hann líklega fengið gult spjald í dag!

Markvörðurinn ungi spilaði ekki meira þetta sumarið en hann náði sér að fullu, mætti galvaskur til leiks næsta vor og missti ekki úr leik næstu ellefu ár. Hann heitir Birkir Kristinsson og er leikjahæsti maður efstu deildar, og leikjahæsti landsliðsmarkvörður Íslands."

Þannig lýsti Víðir atvikinu. Eins og hann bendir á varð Birki ekki meint af þessu til lengri tíma litið en var frá keppni í tæpt ár. 

Birkir átti flottan feril og vann titla á Íslandi með ÍA og Fram auk þess að spila erlendis. Birkir var fastamaður í íslenska landsliðinu um árabil og spilaði til að mynda leikina frægu gegn heimsmeisturunum frá Frakklandi í undankeppni EM 2000. 

Birkir fagnar sigri á Ítölum á Laugardalsvelli árið 2004 ásamt …
Birkir fagnar sigri á Ítölum á Laugardalsvelli árið 2004 ásamt Eiði Smára Guðjohnsen og Brynjari Birni Gunnarssyni. Birkir er búinn að klæða sig í treyjuna frá sjálfum Giunligi Buffon. mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka