Bandaríski knattspyrnumaðurinn Dion Acoff hefur gert samkomulag við Þrótt Reykjavík og mun hann leika með liðinu í sumar.
Acoff þekkir vel til Þróttar því hann lék með liðinu tímabilin 2015 og 2016. Þá lék hann með Val 2017 og 2018 og var Íslandsmeistari með liðinu bæði árin.
Acoff, sem er 29 ára, á 80 keppnisleiki að baki hér á landi þar sem hann hefur skorað 16 mörk. Hefur hann skorað níu mörk í 40 deildarleikjum með Þrótti, en hann hjálpaði liðinu að komast úr 1. deildinni og upp í þá efstu sumarið 2015. Hann féll hins vegar með liðinu árið eftir.
Þróttur var í harðri fallbaráttu í 1. deildinni síðasta sumar og rétt slapp við fall í lokaumferðinni. Fyrsti deildarleikur liðsins í sumar er á heimavelli gegn Leikni Reykjavík þann 19. júní.