„Sé enga ástæðu til að spá okkur hærra en það“

KR-ingar fagna á Meistaravöllum í kvöld.
KR-ingar fagna á Meistaravöllum í kvöld. mbl.is/Íris

KR-ingar höfðu betur gegn Víkingum Reykjavík í Meistarakeppni KSÍ á Meistaravöllum í Vesturbænum í kvöld. Um er að ræða formlegan upphafsleik Íslandsmótsins þar sem Íslandsmeistararnir fá bikarmeistarana í heimsókn. Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var í samtali við mbl.is að leik loknum og sagði hann þessa keppni skipta máli.

„Þetta skiptir miklu máli, þetta er náttúrulega bara einn bikar í safn okkar KR-inga og míns liðs. Þetta er líka gott upp á sjálfstraustið. Eins og margir vita spiluðum við ekkert sérstaklega vel í æfingaleikjunum gegn Stjörnunni og Keflavík. Við höfum leitað eftir stíganda og hann kom í dag,“ sagði Rúnar. „Við erum á góðum stað held, eftir að hafa sé leik liðsins í kvöld.“

KR-ingar urðu Íslandsmeistarar í fyrra með mikla reynslubolta innan sinna raða og hafa gert fáar breytingar á leikmannahópi sínum. Rúnar segist ánægður með hópinn, þó KR-ingar hafi hugsanlega viljað bæta við einum eða tveimur.

„Við erum með fullorðið lið með mikla reynslu. Þetta er mjög samhæfur hópur, þeir þekkja hver annan vel og þekkja sín hlutverk. Ef strákarnir eru samviskusamir og vinnusamir, þá verður erfitt að brjóta okkur á bak aftur. En við þurfum líka að geta hlaupið og haft orku í 90 mínútur, það vantaði aðeins í dag. Það er mikil reynsla í liðinu en það er ekki nóg bara að hafa hana, við verðum að nýta hana líka.

Við vorum ekki að leita allt of mikið af leikmönnum, þótt við hefðum kannski vilja einn til tvo. Ég er mjög ánægður með hópinn. Ég hef prófað það áður að hrista upp í liðinu eftir Íslandsmeistaratitil og það hefur ekkert gengið. Við skulum sjá hvort þetta gangi eitthvað betur.“

Fjölmiðlar hafa undanfarið verið að spá Völsurum Íslandsmeistaratitlinum í sumar, frekar en ríkjandi meisturum KR. Rúnar var fljótur að svara, spurður um álit sitt á því. „Okkur var spáð 4. til 5. sæti í fyrra og við erum með nákvæmlega sama lið núna. Ég sé enga ástæðu til að spá okkur hærra en það.“

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert