Dóra og Málfríður hnífjafnar

Hallbera Guðný Gísladóttir, Málfríður Erna Sigurðardóttir og Dóra María Lárusdóttir. …
Hallbera Guðný Gísladóttir, Málfríður Erna Sigurðardóttir og Dóra María Lárusdóttir. Hallbera hefur ekki leikið „nema“ 192 leiki í efstu deild. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Þegar Íslandsmótið í knattspyrnu er að hefjast hafa liðsfélagarnir Dóra María Lárusdóttir og Málfríður Erna Sigurðardóttir leikið nákvæmlega jafn marga leiki í efstu deild. 

Ekki er það svo að þær hafi leikið tvo eða þrjá leiki heldur 237 leiki hvor. Dóra María hefur leikið þá alla fyrir Val en Málfríður fyrir Val og Breiðablik. Eru þær sem stendur í 3. til 4. sæti listans yfir leikjahæstu konur í efstu deild frá upphafi. 

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir einnig úr Val er svo aðeins einum leik á eftir með 236 fyrir Val, Stjörnuna og Breiðablik. 

Gjarnan er talað um að Valsliðið, sem á titil að verja á Íslandsmótinu, sé leikreynt og þar er engu logið. Liðið á fjóra leikmenn af fimm efstu á listanum yfir leikjahæstu konur efstu deildar frá upphafi.

Markvörðurinn Sandra Sigurðardóttir slær þeim þremur fyrrnefndu við með 280 leiki í efstu deild fyrir Þór/KA/KS, Stjörnuna og Val. Hún er leikjahæsta kona Íslandsmótsins frá upphafi en í öðru sæti á listanum er Harpa Þorsteinsdóttir með 252 leiki fyrir Breiðablik og Stjörnuna.

Dóra og Málfríður gætu því farið upp fyrir Hörpu á listanum í sumar.  

Ein Valskona í viðbót hefur náð 200 leikjum í efstu deild og það er Fanndís Friðriksdóttir sem leikið hefur nákvæmlega 200 leiki fyrir Val og Breiðablik. 

Pepsí Max-deild kvenna hefst á föstudagskvöldið með leik Vals og KR á Hlíðarenda.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert