Eins sárt og það verður

Ólafur Ingi Stígsson á hliðarlínunni í kvöld.
Ólafur Ingi Stígsson á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta gerist ekki mikið sárara en ég er þrátt fyrir það afar stoltur af strákunum,“ sagði Ólafur Ingi Stígsson, annar þjálfari Fylkis, í samtali við mbl.is eftir 2:1-tap liðsins gegn Stjörnunni í 1. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Samsung-vellinum í Garðabæ í kvöld.

Valdimar Þór Ingimundarson kom Fylkismönnum yfir strax á 1. mínútu en Hilmar Árni Halldórsson jafnaði metin fyrir Garðbæinga á 25. mínútu. Það var svo Ísak Andri Sigurgeirsson sem skoraði sigurmark leiksins í uppbótartíma.

Við skorum og svo föllum við aðeins til baka eftir það. Við náum ekki að vinna okkur nægilega vel út úr pressunni þeirra en við eigum nokkur mjög góð augnablik í fyrri hálfleik þar sem við náum nokkrum góðum skyndisóknum og fínum spilköflum sem við hefðum átt að nýta okkur aðeins betur. Í síðari hálfleik lágum við einfaldlega of langt til baka.

Ólafur tók við þjálfun liðsins ásamt Atla Sveini Þórarinssyni eftir síðasta tímabil og hann viðurkennir að hann hefði viljað fá meiri tíma til þess að koma inn með sínar áherslur.

„Það tekur tíma að breyta þeim hlutum sem við viljum breyta og við misstum auðvitað út dýrmætan tíma á meðan samkomubannið var í gildi, eins og önnur lið. Það er lítið annað að gera en að halda áfram og það munum við gera.

Miðað við það hvernig mótið fer af stað virðast öll lið geta kroppað stig af hvert öðru þannig að vonandi heldur það bara áfram og við fáum opna og skemmtilega deild.“

Framherjinn Geoffrey Castillion hefur verið orðaður við endurkomu í Árbæinn en Ólafur á von á því að hans mál skýrist í vikunni.

„Vonandi skýrast mál Castillion í vikunni en að sama skapi fáum við Arnór Borg inn í næsta leik sem eru jákvæðar fréttir. Við missum út tvo menn eftir þennan leik, Óla sem er á leið í bann og svo Ragnar Braga sem meiðist,“ sagði Ólafur Ingi í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert