Nýir tímar í Garðabæ

Alex Þór Hauksson, fyrirliði Stjörnunnar, var að vonum sáttur í …
Alex Þór Hauksson, fyrirliði Stjörnunnar, var að vonum sáttur í leikslok. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er himinlifandi með að hafa náð að klára þetta,“ sagði Alex Freyr Hauksson, fyrirliði Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir 2:1-sigur liðsins gegn Fylki í 1. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Samsung-vellinum í Garðabæ í kvöld.

Valdimar Þór Ingimundarson kom Fylkismönnum yfir strax á 1. mínútu en Hilmar Árni Halldórsson jafnaði metin fyrir Garðbæinga á 25. mínútu. Það var svo Ísak Andri Sigurgeirsson sem skoraði sigurmark leiksins í uppbótartíma.

„Við misstum aldrei trúna og við töluðum um það í hálfleik að það væri þolinmæðisverk að brjóta þá niður. Við vissum að markið myndi detta á endanum og sem betur fer gerði það það.

Aron Snær vinur minn stóð sig virkilega vel í markinu hjá Fylki og hrós til hans. Að sama skapi fengum við urmula færa til þess að skora en þetta var bara fyrsti leikur sumarsins og ég hef fulla trú á því að mörkin muni koma þegar líða fer á sumarið.

Annars er ég hrikalega stoltur af öllu liðinu og þeim sem komu inn á. Ísak Andri kemur inn á í sínum fyrsta leik í efstu deild og að ná að skora líka er magnað. Ég gæti ekki verið stoltari af honum.“

Garðbæingar héldu áfram af fullum krafti í kvöld, þrátt fyrir að hlutirnir væru ekki að falla með þeim.

„Það eru klárlega nýir tímar í Garðabænum og við neitum að gefast upp. Við höfum mikla trú á okkur sjálfum og erum búnir að æfa gríðarlega vel í allan vetur. Við erum í hörkuformi og við erum sannfærðir um að ef við mætum 100% til leiks í sumar þá getum við unnið hvaða lið sem er.“

Ólafur Jóhannesson kom inn í þjálfarateymi Stjörnunnar síðasta haust og stýrir hann nú liðinu ásamt Rúnari Páli Sigmundssyni.

„Það hefur ekkert breyst þannig lagað og við leikmennirnir finnum ekki fyrir neinum breytingum þannig lagað. Óli er frábær þjálfari og Rúnar engu síðri. Þeir eru báðir stórkostlegir þjálfara og ég finn engan mun á þessu tveggja eða eins þjálfara kerfi,“ bætti Alex Þór við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert