Stjarnan keyrði yfir áttavillta Árbæinga

Sölvi Snær Guðbjargarson og Ragnar Bragi Sveinsson í skallabaráttu. Ragnar …
Sölvi Snær Guðbjargarson og Ragnar Bragi Sveinsson í skallabaráttu. Ragnar þurfti að fara á sjúkrahús fyrir hlé eftir að hafa fengið mikið högg á kinnbeinið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hinn sextán ára gamli Ísak Andri Sigurgeirsson reyndist hetja Stjörnunnar þegar liðið vann 2:1-sigur gegn Fylki í 1. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Samsung-vellinum í Garðabæ í kvöld.

Valdimar Þór Ingimundarson kom Fylkismönnum yfir strax á 1. mínútu eftir langt innkast frá hægri. Garðbæingar náðu ekki að hreinsa frá marki, boltinn barst til Helga Vals Daníelssonar sem skallaði boltann á fjærstöngina. Þar var mættur Valdimar Þór sem fékk nægan tíma til þess að athafna sig og hann skoraði laglega fram hjá Haraldi Björnssyni í marki Stjörnunnar.

Hilmar Árni Halldórsson jafnaði metin fyrir Stjörnuna með stórkostlegri aukaspyrnu af 35 metra færi á 25. mínútu og það var svo Ísak Andri sem skoraði sigurmark leiksins í uppbótartíma þegar boltinn datt fyrir hann í vítateig Fylkismanna. Ísak hamraði boltann af stuttu færi í átt að marki og fór hann í netið eftir að hafa haft viðkomu í Ásgeiri Eyþórssyni, varnarmanni Fylkis.

Stjörnumenn fagna Hilmari Árna Halldórssyni eftir að hann jafnaði metin …
Stjörnumenn fagna Hilmari Árna Halldórssyni eftir að hann jafnaði metin beint úr aukaspyrnu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Til alls líklegir

Garðbæingar voru mun sterkari aðilinn í leiknum og þeir hefðu eflaust sofið ansi illa í nótt ef þeir hefðu ekki klárað leikinn með sigri. Þeir fengu fjölda tækifæri, bæði alvörufæri og hálffæri til þess að skora en gekk illa að nýta tækifæri sín fyrir framan markið og á síðasta þriðjungi vallarins. Liðið hélt bolta gríðarlega vel og það var strax hægt að sjá handbragð Ólafs Jóhannessonar á liðinu.

Sölvi Snær Guðbjargarson var frábær á vinstri kantinum og miðjuspil liðsins var afar beinskeytt. Boltinn gekk hratt á milli manna og það var oft og tíðum eins og Stjörnumenn væru einum manni fleiri í leiknum. Allir leikmenn liðsins voru með hlutverk sín á hreinu og allar aðgerðir þeirra inni á vellinum höfðu tilgang, eitthvað sem hefur kannski vantað hjá liðinu á undanförnum árum.

Ég er nokkuð sannfærður um að Garðbæingar hefðu hengt haus síðasta sumar, verandi mun betri aðilinn allan leikinn, en hlutirnir ekki að detta með þeim fyrir framan markið. Í kvöld missti liðið aldrei trúna og það er einhver ára yfir Garðabænum í ár sem segir manni að þeir séu ekki bara í mótinu til þess að vera með.

Fylkismenn fagna eftir að Valdimar Þór Ingimundarson kom þeim yfir …
Fylkismenn fagna eftir að Valdimar Þór Ingimundarson kom þeim yfir á fyrstu mínútu í Garðabæ í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sparkað og vonað það besta

Fylkismenn skoruðu gott mark strax á fyrstu mínútu en síðan ekki söguna meir. Eftir að hafa komist yfir féll liðið vel til baka og hreinlega bauð Stjörnumönnum inn í leikinn sem þeir að sjálfsögðu þáðu. Það er erfitt að fara yfir leik Árbæinga í kvöld og ætla að finna jákvæða punkta.

Liðinu gekk afleitlega að halda boltanum innan liðsins. Miðjumenn liðsins voru eins mikið úr takt og það verður og Stjarnan hreinlega lék sér að því að finna sóknarmenn liðsins í svæðinu á milli miðju og varnar, allan leikinn. Þá komust kantmenn Stjörnunnar sí og æ í leikstöðuna einn á meðan kantmenn Árbæinga voru allt of seinir að skila sér til baka og hjálpa.

Pressan var léleg, uppspilið var lélegt, og þetta var í raun eins slakur „sparka og vona“ fótbolti og hann verður. Á meðan Geoffrey Castillion er ekki mættur í Árbæinn þýðir lítið að spila fótbolta eins og hann sé fremsti maður vallarins. Fylkismenn þurfa að gera miklu betur ef þeir ætla sér að vera í efri hluta deildarinnar í sumar.

Valdimar Þór Ingimundarson úr Fylki og Halldór Orri Björnsson úr …
Valdimar Þór Ingimundarson úr Fylki og Halldór Orri Björnsson úr Stjörnunni í Garðabænum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Stjarnan 2:1 Fylkir opna loka
90. mín. Emil Atlason (Stjarnan) á skot sem er varið DAUÐAFÆRI! Emil Atla fær frítt skot í teignum en Aron Snær ver meistaralega.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert